Ótrúlegt ferðalag tösku íslenskrar stúlku hófst í Ikea í Frakklandi og endaði aftur hjá eiganda sínum á Íslandi tæpum fimm mánuðum síðar. 

Myndavél, súkkulaði og seðlaveski í töskunni 

Hin tólf ára Ingibjörg Kristjánsdóttir var stödd í heimsókn hjá föður sínum Nantes í Frakklandi í sumar ásamt systur sinni þegar leið þeirra lá í Ikea til þess að snæða hádegisverð. 

Að snæðingi loknum gengu feðginin út úr húsgagnaversluninni, en taska Ingibjargar varð eftir á veitingastaðnum. Í töskunni voru dýrmætir gripir, myndavél, seðlaveski og það sem mestu máli skiptir, franskt súkkulaði. Þrátt fyrir mikla leit fjölskyldunnar og starfsmanna fannst taskan aldrei og var því gert ráð fyrir því að taskan væri týnd og tröllum gefin. 

Málið tók þó óvænta stefnu í dag þegar faðir Ingibjargar leit inn á veraldarvefinn og sá færslu frá Ikea á Íslandi sem var svo hljóðandi.

„Þekkir þú Ingibjörgu sem heimsótti IKEA í Nantes í Frakklandi í sumar? Vinir okkar sendu okkur þessa tösku en eigandi hennar er að öllum líkindum hún Ingibjörg sem var þar á ferð í sumar,“ segir í færslunni þar sem má sjá mynd af umræddri tösku og bréfi frá starfsmönnum Ikea í Nantes. 

Seðlaveskið vísaði á eigandann

Foreldrar Ingibjargar voru ekki lengi að gera versluninni viðvart að töskunnar góðu væri sárt saknað af tólf ára snót og kveðst Ingibjörg vera mjög sátt með að endurheimta töskuna, enda voru í henni að finna ýmsir dýrgripir. 

„Hún hefur sennilega dottið einhverstaðar en maður veit náttúrulega ekkert hvar eða hvernig hún fannst,“ segir Brynja Kristinsdóttir, mamma Ingibjargar. 

Hundruðir, ef ekki þúsundir koma inn í verslanir Ikea daglega og því eflaust mikið verk að finna eigendur þeirra óskilamuna sem þar enda. Það sem varð Ingibjörgu til happs er þó það að í töskunni var seðaveski, sérmerkt henni og vissu því eigendur Ikea að eigandinn hét Ingibjörg, sem er séríslenskt nafn og einfaldaði málin töluvert.

„Ég veit svosem ekki hvernig þau föttuðu að Ingibjörg væri endilega íslenskt nafn,“ segir Brynja sem segir dóttur sína alsæla með fundinn. 

Súkkulaðið horfið úr töskunni

„Ég er mjög spennt að sækja hana, við fórum í svona súkkulaðibúð og ég fékk lítið box af súkkulaði en ég fékk aldrei að borða það,“ segir Ingibjörg í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag, áður en hún sótti töskuna góðu. 

Þegar taskan var komin í hendur eiganda á nýjan leik kom í ljós að einn dýrgrip vantaði í töskuna, franska súkkulaðið - á meðan myndavélin og seðlaveskið voru á sínum stað. Það er því óvíst hvort, og þá hvaða, starfsmenn Ikea gæddu sér á súkkulaðinu góða, eða hvort það hafi einfaldlega endað í ruslinu eftir alla þessa bið.