Kvikmyndir

Pain and Glory

★★★★

Leikstjórn: Pedro Almodovar

Aðalhlutverk: Antonio Banderas, Penélope Cruz, Asier Etxeandia, Nora Navas

Spænsku félagarnir Pedro Almodovar og Antonio Banderas hafa gert átta kvikmyndir saman á síðustu 40 árum og ferlar beggja eru svo samofnir að hvor á hinum margt að þakka. Líklega rísa þeir þó einna hæst í Pain and Glory sem var frumsýnd í fyrra en ratar nú loksins í kvikmyndahús á Íslandi.

Banderas leikur hér þunglynda kvikmyndaleikstjórann Salvador Mallo sem má muna sinn fífil fegurri en Almodovar byggir myndina lauslega á eigin lífi og engum blöðum er um það að fletta að Pain and Glory er persónulegasta verk hans til þessa.

Klæðaburður og hárgreiðsla Salvadors taka af öll tvímæli um að persónan er byggð á Almodovar sjálfum auk þess sem sum atriði myndarinnar voru tekin á heimili leikstjórans.

Nora Navas leikur Mercedes, aðstoðarkonu Salvador, sem er jafnframt eina af fáum manneskjum sem hann á að.

Líkami Salvadors virðist, eins og hugur hans, hafa gefist upp á honum. Hann þjáist af mígreni og verkjum í hné og baki svo eitthvað sé nefnt. Auk þess fær hann einnig dularfull köfnunarköst þannig að það eitt að drekka vatn getur reynst honum lífshættulegt.

Líf í filmuflækju

Salvador virðist hafa misst lífsviljann og sjónar á tilgangi tilveru sinnar þar sem hann lítur á kvikmyndagerðina sem upphaf og endi lífsins. Þar sem hann getur ekki einu sinni reimað á sig skóna ákveður hann að hann hafi ekki heilsu til þess að leikstýra og flækir sig í þeirri þversögn að sársauki sé oftar en ekki góður innblástur til listsköpunar.

Sagan sækir drifkraftinn því í forna frægð og áform um að endursýna myndina Sabor, eða Bragð, sem Salvador gerði þegar hann var á hátindi ferilsins. Þessi upphefð verður til þess að hann endurnýjar kynni sín við aðalleikara myndarinnar sem hann hefur ekki talað við síðan myndin var frumsýnd fyrir þrjátíu árum.

Allt fram streymir

Þegar Salvador horfir til fortíðar minnist hann fábrotinnar barnæsku, fjölskyldu og ástvina sem allir eru horfnir á braut. Myndin líður áfram þegar eitt leiðir snilldarlega af öðru og við stökkvum fram og aftur í tíma á meðan söguþráðurinn flæðir áreynslulaust eins og vatnið sem ávallt er til staðar í myndinni.

Antonio Banderas var mjög svo verðskuldað tilnefndur til Óskarsverðlaunanna fyrir leik sinn í myndinni enda var hann víða valinn besti leikari síðasta árs fyrir þann stórleik sem hann sýnir sem hinn þjakaði Salvador.

Pedro Almodovar, Penelope Cruz og Antonio Banderas á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra. Þar vann Banderas verðlaun fyrir leik sinn í myndinni.

Lífið og listin…

Banderas tjáir tilfinningar persónunnar, andlegan og líkamlegan sársauka, best með því að sýna þær ekki. Salvador er alveg tómur nema þegar hann hugsar um fortíðina eða hittir gamlan elskhuga. Enda segir hann sjálfur í myndinni að bestu leikararnir þurfi ekki að gráta til þess að sýna tilfinningar.

Almodovar ræðst hér síður en svo á garðinn þar sem hann er lægstur enda eru efnistök myndarinnar ansi umfangsmikil þar sem Pain and Glory fjallar um listina, minningar, ástina, lífið og dauðann um leið og hún er óður til kvikmyndagerðarinnar.

… og allt þar á milli

Eina raunverulega athugasemdin sem hægt er að gera við myndina liggur einmitt í þessum breiðu efnistökum þar sem finna má að því að það vanti einhvers konar ris í söguna.

Áhorfandinn bíður skólaður í línulaga uppeldi eftir einhverjum mikilfenglegum eða tilfinningaþrungnum atburði sem aldrei kemur. En kannski er það einmitt ætlunarverk Almodovars og kjarninn í sögu hans og lífinu. Maður lætur sig dreyma um ýmislegt sem aldrei gerist eða rætist því lífið er ekki bíómynd.

Niðurstaða: Leikstjórinn Pedro Almodovar á sinn De Niro og Leonardo Di Caprio í Antonio Banderas. Þeir hafa stillt saman strengi sína með átta kvikmyndum á 40 árum og hafa líklega aldrei risið hærra en í þessari persónulegustu mynd Almodovars þar sem Banderas sýnir stórleik sem leikstjóri sem gerir upp líf sitt.