Fatastíll Atla Erlendssonar, bassaleikara rokksveitarinnar Casio Fatso, er að eigin sögn mjög afslappaður, alveg frá toppi til táar. „Ég klæðist iðulega strigaskóm eða Timberland-kuldaskóm og geng í íþróttasokkum en ég spæni upp um tíu pörum úr Rúmfatalagernum á mánuði. Oftast geng ég í gallabuxum, bol og peysu eða skyrtu. Yfir hörðustu mánuðina klæðist ég 66°Norður Þórsmörk úlpu og 66°Norður vindbrjót á vorin og haustin. Yfir sumartímann er það helst ekkert nema strangheiðarlegur bolurinn.“

Hann segir ameríska glæpamenn frá þriðja áratug síðustu aldar vera helstu tískufyrirmynd sína enda hafi þeir fullkomnað útlitið algjörlega. „Aðsniðin jakkaföt með bindi, hattur, háglans leðurskór og hattur. Vasaklútur og vasaúr. Það er samt erfitt að ná þessu lúkki öðruvísi en að fólk geri ráð fyrir að þú sért á leiðinni á grímuball.“

Nýlega var tilkynnt að Casio Fatso myndi koma fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í sumar og segir Atli það hafa verið frábærar fréttir. „Þeir eru að keyra meira af rokki þarna inn og erum við fyrstir í röð til að styðja við slíkt enda miklir talsmenn rokksins. Casio Fatso mun gefa allt í framkomu sína og spila bæði gamalt og nýtt efni sem hefur verið að malla undanfarin tvö ár eða svo.“

Hvernig fylgist þú helst með tískunni?

Helst í gegnum tónlistarmyndbönd, sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Ég fylgist ekki mikið með þekktum persónum á Instagram og Facebook gagngert til að fá innblástur að klæðaburði en þó er alltaf eitthvað sem maður rekst á. Ninja úr hljómsveitinn Die Antwoord er t.a.m. átrúnaðargoð í klæðaburði. Fyrst og fremst vegna þess að 70% af klæðum hans eru nærbuxur. Mig vantar þó að skafa af mér mesta skvapið til að ná því lúkki.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?

Bolurinn kaupir fyrst og fremst í H&M og Primark á sólarströndum og í London. Ég er þar engin undantekning. Einnig er ég sérlega hrifinn af Springfield. Þar er hægt að kaupa klæði sem fara hávaxna manninum sem er ekki alveg eins kjötaður og meðal NBA-leikmaður. Svo er konan mín einkar lunkin að velja föt á mig, sem hún gerir óspart, og það hefur nær aldrei endað með ósköpum.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Eftir á að hyggja voru útvíðar flauelsbuxur á fyrri hluta tíunda áratugarins ekki til fyrirmyndar. En þær þóttu bara svo töff!

Hvaða flík hefur þú átt lengst og notar enn þá?

Rennda hvíta Raw Blue peysu sem er í stærra lagi sem ég keypti í einhverri hipphopp-búð erlendis fyrir sléttum áratug. Hún hefur komið og farið en ég fer alltaf aftur í hana á endanum. Rennilásinn í henni gaf upp öndina og þá voru góð ráð dýr. Ég reif rennilás úr sérsaumuðum Hensongalla sem liðsmenn Morðingjanna fengu ásamt Borko, Reykjavík! og Benna Hemm Hemm þegar Sumargleðin 2008 túrinn var farinn um landið. Ég er ekki frá því að peysan sé jafnvel betri eftir lagfæringu og ég nota hana enn.

Áttu þér eina uppáhaldsflík?

Besta flík sem ég hef átt var tvítóna dökk og ljósbrún Adidas-peysa sem var hægt að snúa á rönguna. Það er eitthvað svo ótrúlega frelsandi við að geta staðið upp og rifið sig úr peysunni með offorsi vitandi að þegar þú klæðir þig aftur í hana þá verður hún eins og allt önnur peysa.

Einnig á ég jakkaföt frá afa mínum sem er á tíræðisaldri. Þau eru keypt í versluninni Karnabæ, sennilega snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Ég þyrfti að skera af mér um 10 kíló og álíka marga sentimetra til að eiga möguleika á að vera glæsilegur í þeim en ég hef ekki gefið upp alla von.. Ég ætla að planta þeirri hugmynd fljótlega hjá syni mínum að hann klæðist þeim þegar hann fermist.

Konan mín, Eva Rós Ólafsdóttir, hefur einnig hannað og prjónað föt í rúman áratug. Fyrir ein jólin hannaði hún og prjónaði ljótu jólapeysuna. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að peysan er þrusuflott og skartar tignarlegum hreindýrum og slær í gegn hvert sem ég fer. Hana dreg ég fram árlega og hún er orðin fastur liður í jólaundirbúningnum.

Bestu og verstu fatakaupin?

Bestu eru án efa þegar ég fór á lagersölu í Hamraborginni. Ég er í skóstærð 47 sem tónar nokkuð vel við mína 197 cm á hæð. Það gerir það hins vegar að verkum að oft er erfitt að finna skó í réttri stærð. Þegar ég rakst svo á þrjú pör af Reebok Classic í réttri stærð keypti ég mér þrjú pör í mismunandi litum. Svo gat ég blandað að vild eftir skapi.

Verstu fatakaupin voru þegar ég fór í Primark eftir að hafa hesthúsað T-bone steik og rauðvínsflösku og fyllti körfuna af einhverju drasli sem ég nennti ekki að máta.

Notar þú fylgihluti?

Hef síðustu ár reynt að venja mig á að nota úr. Bæði snjallúr og gamaldags. Ég var að komast upp á lagið með að hafa snjallúrið en eftir að ég skipti um síma nýverið og reyndi einhverjar hundakúnstir með úrið þá virðist ég hafa skipt öllum texta yfir á mandarín mállýsku. Þegar ég virti fyrir mér snjallúrið á hendinni á mér sem hafði skyndilega engan gagnlegan tilgang áttaði ég mig á því að mér finnst það hreinlega ekkert flott. Mér þykir afar vænt um vasaúr sem afi minn gaf mér og ég nota gjarnan við jakkaföt, sér í lagi ef ég er í vesti. Ég þarf að temja mér að nota það hversdags.

Svo á ég Ray-Ban Aviator sólgleraugu. Það er ekkert eins kvíðavaldandi og að eiga slík. Í gegnum tíðina hef ég átt mikið af ódýrum eftirlíkingum af slíkum gleraugum sem hafa dugað mislengi. Konan mín gaf mér svo ekta Ray-Ban fyrir nokkrum árum og ég asnaðist til að taka þau með mér í sund hvar ég gleymdi þeim. Nýverið fékk ég mér aftur slík gleraugu og ég tek varla augun af þeim. Ef þau eru ekki í sjónmáli byrja ég að svitna á efri vörinni og get um fátt annað hugsað. Mögulega ætti ég að skipta aftur yfir í eftirlíkingar?