Lífshlaupið er góður vettvangur fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig eða eru nú þegar að hreyfa sig reglulega og vilja skrá hreyfinguna markvisst, hafa yfirsýn og setja sér markmið. Auk þess að hvetja til hreyfingar daglega þá skapar verkefnið skemmtilega stemningu á vinnustöðum og í skólum sem keppa sína á milli og innanhúss. Nýjung í ár er smáforrit Lífshlaupsins sem finna má bæði í App Store og Play Store undir nafninu Lífshlaupið. Í því má skrá alla sína daglegu hreyfingu á afar einfaldan hátt.

Hverjir taka þátt?

Allir landsmenn geta tekið þátt, hver á sínum forsendum. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Einnig skapar þátttaka góðan anda á vinnustöðum og í skólum landsins.

Lífshlaupskeppnin skiptist í:

  • Grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri í tvær vikur í febrúar
  • Framhaldsskólakeppni fyrir 16 ára og eldri í tvær vikur í febrúar
  • Vinnustaðakeppni í þrjár vikur í febrúar
  • Einstaklingskeppni þar sem allir geta tekið þátt og skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið

Hver er ávinningurinn af svona átaki?

Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til þess að huga að daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.

Er hann áþreifanlegur?

Ávinningurinn er að vinnustaðir og skólar landsins keppast við að hreyfa sig við hvert tækifæri. Dæmi eru um að hópar myndist á vinnustöðum og nýti hádegin til göngu, hlaupa, hjólreiða eða annarrar hreyfingar. Víða eru settar upp keppnir innan vinnustaða í t.d. tröppuhlaupi/gangi eða armbeygjum, reipitogi og öðrum skemmtilegum leikjum. Á meðan á átakstímabilinu stendur er venjulega margt um manninn á kvöldgöngu/hlaupum í mörgum bæjarfélögum landsins til þess að ná sér í 30 mínúturnar sínar.

Dagleg hreyfing er börnum og unglingum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxi, þroska og andlega vellíðan. Photo - www.pix.is

Hverjar eru reglurnar?

Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum.

Í vinnustaðakeppninni má skrá alla miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu sem stunduð er utan vinnutíma. Til þess að fá einn dag skráðan þarf að hreyfa sig að lágmarki í 30 mínútur sem skipta má upp í nokkur skipti yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn. Hreyfingin ætti að vera eins fjölbreytt og mögulegt er til að efla sem flesta þætti hreysti, þar á meðal afkastagetu hjarta og æðakerfis, lungna, vöðvastyrk, liðleika, viðbragð og samhæfingu.

Dagleg hreyfing er börnum og unglingum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Öll börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og er kröftug hreyfing sem reynir á beinin sérstaklega mikilvæg fyrir kynþroska og á kynþroskaskeiði fyrir beinmyndun og beinþéttni.

Mikilvægt er að framlag hvers og eins telur en í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp með það að markmiði að framlag hvers og eins telur, ef starfsmaður skráir einn dag þá telur það. Allt er betra en ekkert. Skráðu þig til leiks og vertu með í landskeppni í hreyfingu. Á meðan Lífshlaupinu stendur eru úrdráttarverðlaun alla virka daga sem og myndaleikur á samfélagsmiðlum og eru veglegir vinningar í boði.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, á hronn@isi.is, eða í síma: 514-4000. Sjá lifshlaupid.is.