Þetta er smá blanda af öllu sem ég hef verið að gera, segir Hallgrímur Helgason, höfundur ljóðabókarinnar Við skjótum Títuprjónum, sem kemur út í dag. Bókin er eitt samfellt ljóð í tuttugu og tveimur köflum sem tekur glettilega á vandamálum heimsins.


Heimsmyndin á hótelinu


Ljóðið kviknaði til lífsins í jólaferð Hallgríms og eiginkonu hans til Porto árið 2016. „Þetta var búið að vera þungt ár – Brexit, Trump, Erdogan, Panama-skjölin og sprungnar ríkisstjórnir,“ segir Hallgrímur. „Maður var orðinn ansi hvekktur á heiminum. Svo sáum við að vinkona okkar var að vinna í hræðilegum aðstæðum í flóttamannabúðunum á Lesbos, á sama tíma og við vorum að velja okkur veitingastaði á kvöldin. Manni fannst þetta hálfómerkilegt líf. Af hverju var maður ekki að berjast fyrir betri heimi? Mér fannst eins og ég væri að skjóta títuprjónum þegar ég skellti í einhver læk á Facebook.“

Í upphafi ætlaði Hallgrímur sér aðeins að skrifa eitt ljóð, en þegar í ljós kom að ástandið vatt aðeins upp á sig, hélt hann áfram. Ljóðið segir Hallgrímur að sé að mestu leyti ort á hótelum og flugvöllum. „Þar birtist manni ástand heimsins hvað skýrast, auk þess sem ég var kannski með samviskubit yfir að fljúga svona mikið. Það vill líka oft vera gjöfull tími hugmyndalega séð þegar maður liggur einn á hótelherbergi í Sjanghæ.“

Bókin er nú orðin að hálfgerðum sögulegum kveðskap, því hún fjallar að mestu um heimsmyndina fyrir kófið. „Ég var búinn með bókina áður en ástandið skall á, en fann samt að ég þyrfti að minnast aðeins á það. Lendingin varð að allra síðasta ljóðið fjallar um kófið sem gæti verið efni í allt aðra bók.“


Undirliggjandi taktur


Samhliða útgáfu bókarinnar verður ljóðlistarmyndband tengt henni frumsýnt í dag. „Ljóðið er ansi frjálslegt í formi og mjög upplestrarvænt. Eftir því sem á leið fór ég að heyra einhvern trommutakt í því og fannst ég þurfa að gera eitthvað við hann,“ segir Hallgrímur, sem fékk trommuséníið Þorvald Þór Þorvaldsson til liðs við sig. „Ég var alveg grænn þegar kom að tónlistarbransanum og vissi ekkert hvern ég ætti að tala við. Ég spurðist fyrir og fékk svör um að Þorvaldur væri eini maðurinn í djobbið.“

Listamaðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson, betur þekktur sem Krassasig, heimsótti þá félaga á einni slíkri æfingu og fékk strax hugmynd um að það yrði að gera myndband við flutninginn. „Það var gaman fyrir mig að fá að vinna með svona ungum töppum,“ segir Hallgrímur.


Gert og græjað á Grandanum


Eðlilega hefur verið lítið fararsnið á Hallgrími nýlega, sem hefur í nógu að snúast á vinnustofu sinni á Grandanum. „Ég er núna að vinna í framhaldinu af Sextíu kíló af sólskini. Bókin er langt komin en það er líka heilmikil vinna eftir. Svo var samið við erlent fyrirtæki um að vinna sjónvarpsseríu eftir bókinni Tíu ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp. Ég kem aðeins að handritinu, hvort sem það verður að veruleika eða ekki. Þar fyrir utan reyni ég svo að sinna myndlistinni, ég leyfi mér að gera alltaf mynd í hverri hádegispásu.“

Útgáfuhóf bókarinnar fer fram í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu milli klukkan 17 og 19 í kvöld. Myndbandið verður síðan til sýnis alla helgina, út sunnudaginn, á opnunartíma safnsins og er aðgangur að því ókeypis. Opið er til 22 í kvöld en 10-17 aðra daga.