„Þetta árið í undanúrslitunum held ég með Íslandi, þess vegna er ég með íslenska fánann sem vinur minn gaf mér,“ segir pólski blaðamaðurinn Maciej sem sækir nú keppnina í 18. skiptið. Hann klæðist íslenska fánanum í blaðamannahöllinni í Tórínó í dag.

Maciej segist elska Íslenska lagið. „Ég elska alla svona rólega tónlist með kántrí-væbi,“ segir hann.

Hann segist fá gæsahúð og smá gleðihroll þegar hann talar um lagið og hann minnist þess að hafa verið að hjóla í Varsjá þegar hann heyrði lagið í heyrnartólum, „og hjólaferðin var svo mjúk og slakandi,“ segir hann.

„Þetta er tónlistin sem ég virkilega elska og takk Ísland fyrir að senda þetta lag.“

Hreifst af Húsavík

Maciej segist hafa horft á Eurovision Saga myndina á Netflix, Eurovision-myndina frægu sem gerist á Íslandi. Hann hafi þó ekki orðið yfir sig hrifinn.

„Sem mikill aðdáandi Eurovision einbeiti ég mér að því að koma auga á staðreyndavillur,“ segir hann en bætir svo við að hann vilji frekar minnast myndarinnar fyrir Húsavíkurbæinn og fallegu tónlistina, landslagið og fólkið. „Ég er svo glaður að Ísland hafi verið aðalpersónan í þeirri mynd, það er svo klikkað.“

Maciej segist stundum verða afbrýðisamur að allir á Íslandi virðist elska Eurovision, að keppnin sé eins og jólin á Íslandi. „Ég væri til í að sjá þetta andrúmsloft í Póllandi,“ segir hann.

Fagnar fjölbreytni í íslensku framlögunum

Aðspurður hvernig kvöldið fari, segist hann vilja sjá Ísland fara áfram. „Það er ólíkt fyrri innsendum lögum, eins og Daði og Hatari. Það er gott að sýna fjölbreytnina og ekki endurtaka það sama,“ segir hann.

„Ég held að Grikkland komist áfram og ég vona líka að Króatía komist áfram. Kannski er ég ekki með hefðbundinn smekk,“ segir hann.

„Ég er samt stoltur af mínum smekk og klæðist íslenska fánanum með stolti - og krossa fingur.“

Aðspurður hver taki verðlaunagripinn heim á laugardag, segist hann óska þess að það sé Pólland en hann vilji þó ekki gera sér of miklar vonir. „Ég held að það gæti verið Svíþjóð eða kannski Úkraína, eða Serbía sem er svolítið öðruvísi í ár. Kannski á Bretland séns. Það er erfitt að spá fyrir þessu ári, það er það sem ég elska við þetta.“