Systurnar Sigga, Beta og Elín komast varla út af hótelinu sínu án þess að vera stöðvaðar af aðdáendum á götum úti.

Í dag og á morgun nær hópurinn að slaka á áður en keyrslan fer aftur í gegn með opnunarhátíð Eurovision þann 8. maí næstkomandi.

Maríanna Pálsdóttir förðunarfræðingur hefur verið að fylgjast með keppendunum á hliðarlínunni og passa upp á Systurnar líti vel út og líði vel. Hún segir að Eurovision sé eins og annar heimur; mikið fjölmiðlafár og flóð af aðdáendum sem fá ekki nóg af sínum uppáhalds atriðum.

„Þær eru stoppaðar úti á götu eins og súperstjörnur. Þær komast ekki inn á veitingastað án þess að vera stoppaðar,“ lýsir Maríanna í samtali við Fréttablaðið. Hún segir magnað að fylgjast með svona hógværum listamönnum fá svona mikla athygli.

Maríanna Pálsdóttir farðar Systurnar í Eurovision.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Það er alltaf eitthvað í gangi, blaðamannafundir, viðtöl á netinu, aðdáendur að spjalla. Svo er þetta svo gott tækifæri til að kynnast öðrum listamönnum og keppendum.“

Maríanna telur að Systurnar koma sérstaklega sterkar inn í viðtölum. Fólk heillist af einlægninni.

Hér er hægt að horfa á annan blaðamannafund Íslands á Eurovision sem fór fram í gær, 5. maí. Þar sló Sigga rækilega í gegn þegar hún talaði um íslenskan mat.