Hljómsveitin Systur, Eurovisionfararnir Sigga, Beta og Elín, hafa unnið að lagasmíðum í sumar og senda frá sér sína fyrstu smáskífu, Dusty Road, á næstunni.

Þá leggja þær upp í tónleikaferð um landið í næstu viku og verða á ferðinni frá 17. til 27. ágúst og þá gefst fólki kostur á að heyra nýtt, frumsamið efni sem kemur út á væntanlegri plötu Systra á næsta ári.

Systur komu, sáu og sigruðu í Söngvakeppni sjónvarpsins fyrr á þessu ári með laginu Með hækkandi sól sem höfundurinn Lay Low bað þær um að flytja. Síðan lá leið þeirra á Eurovision til Ítalíu eins og frægt er orðið.

Vinna þeirra við Með hækkandi sól gerði þeim ljóst hversu vel tónlistarstefnan á við þær og þær grófu upp nokkur lög sem þær höfðu samið í þessum stíl. Þannig má því búast við þjóðlagaskotnu efni frá þeim með tengingum við bandaríska sveitatónlist sem hefur alltaf átt stórt pláss í hjörtum þeirra.