Systur verða 18. á svið í úrslitakeppni Eurovision annað kvöld. Samkvæmt umfjöllun Rúv er 18. sætið af mörgum talið vera besta sætið. Einn dyggur aðdáandi hefur reiknað út að lögin í því sæti hafa fengið flest stig að meðaltali á árunum 2003 til 2016.
Almennt er því haldið fram að best sé að sýna í seinni hluta úrslitakvöldsins. Um tveir þriðju allra sigurvegara keppninnar voru með lag í síðari hluta kvöldsins, samkvæmt vef Eurovision. Frá árinu 2013 hefur þó meirihluti sigurlaga verið í fyrri hlutanum.
Samkvæmt vef Eurovisionworld er þeim Siggu, Elínu og Betu og Eyþóri bróður þeirra spáð 20. sætinu. Fyrir seinni undanúrslitin var þeim spáð 23. sæti en þær ruku upp um átta sæti í heildina eftir glæsilega frammistöðu á þriðjudagskvöldið.
Lag Úkraínu er spáð sigri á morgun og er Bretum, Svíum og Ítalíu spáð næstu þremur sætunum. Úrslitakvöld Eurovision hefst klukkan 19:00 á RÚV 1 annað kvöld en ef úrslit liggja ekki fyrir klukkan 21:50 verður útsending færð á RÚV 2 vegna sveitastjórnarkosninganna.