Samantha Mark­le, systir her­toga­ynjunnar Meg­han Mark­le, fór ó­fögrum orðum um systur sína í breska morgun­þættinum This Morning í morgun og sagði aug­ljóst að vendingar síðustu vikna væru al­farið frá henni komnar. Sjá má við­talið við Samönthu neðst í fréttinni.

Líkt og Frétta­blaðið hefur áður greint frá er Samantha hálf­systir Meg­han og hefur þeim ekki verið vel til vina undan­farin ár. Í við­talinu í morgun­þættinum full­yrðir Samantha að hún viti að það hafi verið Meg­han sem á­kvað að her­toga­hjónin myndu segja skilið við konungs­fjöl­skylduna.

„Harry Breta­prins og Meg­han þurfa að biðjast af­sökunar á mörgu,“ sagði systirin í við­tali í gegnum fjar­skipta­búnað en hún býr í Flórída. „Við erum ekki að tala um ung­linga, við erum að tala um full­orðið fólk sem veit hvað þau eru að gera og hvað varðar föður minn var allt rangt við það.“

Þar vísar hún til sam­skipta Meg­han við föður sinn, Thomas Mark­le. Þau hafa ekki talast við og undir­býr Thomas sig nú undir að vitna gegn henni í máli Meg­han gegn breskum götu­blöðum. Samantha segir það mál fá­rán­legt. Það sé til­raun Meg­han til að þyrla ryki í augum bresks al­mennings.

„Frá mínu sjónar­horni, þá held ég að Meg­han hafi notið þess þegar þetta voru bara þau fjögur fræknu og með myndirnar af henni með vindinn í hárinu og brosandi í kringum breska hreiminn,“ segir Samantha.

„En um leið og al­menningur fór að gangrýna hegðunina og eyðsluna að þá breyttist tónninn og þetta varð að ein­hvers­konar rök­villu, þar sem hún­forðaði sér undan á­byrgð, sneri öllu á hvolf og það er frekar sárt, ég hef ekki séð neitt rasískt svo það virðist vera sem hún sé að víkja sér undan á­byrgð,“ segir systirin.

„Mér fannst þetta bara rosa­leg brot gegn skyldum hennar og heiðri og brot gegn traustinu sem henni var sýnt.“