Swimslow, sundfatamerki fatahönnuðarins Ernu Bergmann, er fimm ára á þessu ári og hún fagnar tímamótunum með sundbolum í þremur nýjum stílum auk þess sem nú verður loks hægt að fá Swim­slow-­bikiní.

„Við erum „slow fashion“ fyrirtæki þannig að við erum ekkert alltaf að koma með nýjar línur og fylgjum kannski ekki hinum dæmigerðu árstíðum í tískuheiminum heldur gerum við þetta bara á okkar hraða,“ segir Erna.

Hún segir hins vegar fimm ára afmælið kjörið tilefni til þess að svala uppsafnaðri sköpunarþörf. „Vegna þess að við búum ekki neitt til að ástæðulausu en erum núna að bæta við þremur nýjum sundbolastílum og bikiní sem er búið að vera lengi á biðlistanum,“ segir Erna sem ætlar að fagna í dag.

„Það er af nógu að taka og við ætlum að fagna þessu og árstíðaskiptunum með Aperol Spritz, sem er náttúrlega líka ítalskt, á Petersen svítunni í dag og vera með sýningu á ljósmyndum sem Silja Magg tók af fyrirsætum í nýju sundfötunum á Langasandi á Akranesi og í nýju sjóböðunum við Hvammsvík.“

Erna vinnur sem fyrr með klassísk og þægileg snið í sundbolum sínum.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Fegurð einfaldleikans

Erna segist, sem fyrr, leggja áherslu á fágun og einfaldleika í nýju sundbolunum með áherslu á fegurðina í smáatriðunum. „Þeir eru í virkilega klæðilegum sniðum og eru ekki með brjóstaskálum og ættu því að passa flestum líkamsgerðum þannig að ef konur vantar sundbol, hvort sem það er til þess að synda í, fara í sjósund, slaka á í gufunni, eru á leið í sólina eða langar bara einfaldlega að skvísast, þá reddar Swimslow málunum.“

Erna er menntaður fatahönnuður og hefur starfað víða við hitt og þetta sem tengist tísku en Swim­slow varð til upp úr mastersnámi hennar í hönnun. „Þar kom þetta verkefni eiginlega upp. Ég var sjálf nýbyrjuð að fara mikið í sund. Búin að uppgötva töfra vatnsins og fann ekki sundföt sem hentuðu mér eða ég var ánægð með þannig að þá ákvað ég bara að ganga sjálf í málið,“ segir Erna sem, eins undarlega og það kann að hljóma, hafði mikið til haldið sig á þurru.

„Ég fór ekki í sund í mörg ár, frá því ég var fimmtán ára þangað til ég varð 25 ára. Af því ég var svo meðvituð um sjálfa mig og óánægð með mig eins og margar konur. Þannig að fyrir mig er þetta líka ákveðinn sigur. Að gera bara sundföt. Vegna þess að mörgum konum finnst alveg erfitt að fara í sund og bera sig og ég vildi gera sundföt sem þeim liði vel í og myndu bara efla þær. Sundföt sem halda vel utan um líkamann og gera okkur öruggar með okkur.“

Hæg en örugg sundtök

Erna segist frá upphafi hafa lagt mikið upp úr sjálfbærni Swimslow og að allt framleiðsluferlið sé eins umhverfisvænt og mögulegt er. Sundfötin eru hönnuð á Íslandi og framleidd á Ítalíu úr endurunnum efnum þannig að þráðurinn í efninu er meðal annars unninn úr notuðum teppum og fiskinetum sem hafa verið endurheimt úr hafinu.

„Ég vildi að við værum umhverfisvæn og að þetta myndi tikka í öll boxin fyrir mig sem neytanda,“ segir Erna og bætir við að þessi hugsun hafi ekki verið sérstaklega algeng í þessum efnum fyrir fimm árum. „En þetta er í rauninni alveg búið að blómstra og neytendahópurinn náttúrlega bara stækkar og stækkar.“

Erna segir aðspurð að vissulega hafi reynt nokkuð á úthaldið á þessum fimm ára langa sundspretti með Swimslow. „Við höfum alltaf fengið góðar viðtökur en maður þarf alveg að vera með smá þrautseigju ef maður ætlar að vera með hönnunarfyrirtæki á Íslandi.

Umhverfið er ekkert með manni á þessari litlu eyju í Atlantshafinu. Tollar eru háir, erfitt að flytja inn og markaðurinn líka náttúrlega bara lítill þannig að ég myndi ekki segja að þetta sé búið að vera auðvelt. En ógeðslega skemmtilegt að gera það sem maður hefur ástríðu fyrir, þannig að við ætlum að halda því áfram,“ segir Erna og hlær.