„Ég er bara ánægður að vera hér að tala við þig með konuna mína mér við hlið af því ég get ekki byrjað á því að ímynda mér hvernig var að ganga í gegnum þetta ein fyrir öllum þessum árum síðan. Því þetta hefur verið ótrúlega erfitt fyrir okkur, en í það minnsta höfum við hvort annað,“ segir Harry bretaprins í fyrstu stiklunni sem hefur verið birt úr viðtali hans og Meghan Markle, eiginkonu hans, við Opruh Winfrey.
Viðtalið verður birt í heild sinni næsta sunnudag, þann 7. mars, á sjónvarpsstöðinni CBS og er í heild sinni um tvær klukkustundir. Í upphafi þess talar Winfrey ein við Markle um af hverju þau stigu frá konungsfjölskyldunni, hjónaband hennar við prinsinn og mannúðarstarf hennar. Síðar í viðtalinu kemur Harry inn og þau tala um flutning sinn til Bandaríkjanna og framtíðarplön sín.
Drukku te á efri hæð rútunnar
Stiklan er birt aðeins stuttu eftir að Harry kom fram í kvöldþættinum The Late Late Show sem stýrt er af James Corden. Þar talaði hann um flutning þeirra, skoðun sína á sjónvarpsþættinum The Crown og móður sína og álagið sem fjölmiðlaumfjöllun setti á hana.