Kristín Lilja er einungis 23 ára gömul. Hún er þegar komin með töluverða reynslu í fyrirsætubransanum og starfar sem fyrirsæta erlendis sem og hérlendis. Hún segir fyrirsætustarfið þó ekki hafa verið eitthvað sem hún ætlaði sér en hlutirnir æxluðust þannig að hún fór óvænt inn á þennan vettvang.

„Ég er jafnframt að læra lögfræði í HÍ sem getur verið frekar krefjandi þar sem ég ver miklum tíma erlendis. Áhugi minn á fötum hefur klárlega aukist eftir að ég byrjaði að starfa sem fyrirsæta þótt ég hafi alltaf heillast af tísku. Fyrirsætustarfið var skemmtilegt tækifæri sem datt upp í hendurnar á mér. Ég var nýbyrjuð í lögfræði þegar að útsendari frá módelskrifstofunni Next Management kom til Íslands og bauð mér alþjóðlegan samning hjá þeim. Ég ákvað að prófa og fór fyrst til Parísar þar sem ég fór í „casting“ fyrir tískuvikuna í París. Ég man að ég var ekkert sérlega vongóð enda fullt af öðrum fyrirsætum í öllum þessum prufum. Svo segir skrifstofan að Dior vilji fá mig í sýninguna sína og eftir það fór boltinn að rúlla. Eftir það hef ég verið í alls konar verkefnum, meðal annars gengið á sýningum fyrir Kenzo, Ganni og Adidas, og verið í myndatökum fyrir alls konar blöð og fatamerki, eins og Versace og Bottega Venetta.“

Kristín Lilja í silkikjól frá Ganni sem keyptur var í Geysi og með töffaraleg gleraugu frá Gucci.

Var unglingur í öðruvísi fötum

Frá því Kristín Lilja var lítil hefur hún haft skoðun á því hvernig fötum hún vill klæðast. „Á unglingsárunum var ég mikið fyrir að vera í öðruvísi fötum og stundum þegar ég skoða myndir af mér frá þeim árum hugsa ég bara, jæja, var þetta ekki fullmikið, en það er skemmtilegt að geta horft til baka og hlegið að fatavalinu.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Hann er frekar afslappaður, ég er mjög hrifin af jogginggöllum og litríkum fötum.“ Aðspurð segir Kristín Lilja að þegar komi að vali á sniðum séu þægindi í fyrsta sæti. „Ég er mjög hrifin af víðum sniðum og vil alls ekki vera í óþægilegum fötum, helst vil ég klæðast víðum fötum og þægilegum skóm.“

Kristín Lilja fann einn af sínum uppáhaldssilkiklútum í poka sem átti að gefa og eru nokkrar vintageflíkur í miklu uppáhaldi sem hún klæðist gjarnan.

„Ég á vintage Hermés-silkiklút sem ég fann fyrir rælni í poka af fötum sem átti að gefa heima hjá ömmu. Einnig held ég mikið upp á buxnadragt frá Hildi Yeoman og stuttbuxur frá René Lezard sem mamma átti þegar hún var á mínum aldri.“

Vintage bolur, Aftur buxur, Gucci gleraugu og Dior taska.

Uppáhald fyrirsætunnar

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Daniel Lee sem hannar fyrir Bottega Venetta, en hann kom með mjög ferskan blæ inn í tískuvöruhúsið.“

Tískuvörumerki sem heillar þig mest?

„Í augnablikinu er það danska merkið Ganni en svo hefur Adidas alltaf verið í miklu uppáhaldi.“

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum hverju sinni eða áttu þína uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég er mjög hrifin af því að vera í flíkum og með fylgihluti í sama lit og eru rauður, grænn og appelsínugulur alltaf mínir uppáhalds.“

Hvernig skótísku heillastu helst af?

„Þó svo að ég sé hávaxin er ég mikið fyrir skó sem hækka mig aðeins. Ég vel því oft skó með platform þegar ég versla mér skó.“

Hvaða fylgihluti finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Flott sólgleraugu gera allan klæðnað betri, finnst mér.“