Baldur Thorlacius er hagfræðingur sem hefur í um fjögur ár á hrekkjavöku skorið út grasker. Mágkona Baldurs vakti athygli á graskerjunum á Twitter í gær og birti af þeim myndir. Graskerin eru eins ólík og þau eru mörg en á meðal þeirra má finna apa og mörg skrímsli.
„Ég byrjaði á þessu fyrir þremur eða fjórum árum,“ segir hann og að hann hafi séð einhvern gera þetta á netinu og ákveðið að prófa sjálfur.
„Ég hef teiknað og unnið við þrívíddargrafík og það lá vel við að prófa. Það er gaman að stússa í þessu,“ segir Baldur sem býr ásamt fjölskyldu sinni á Leifsgötunni.
Graskerin hafa vakið athygli fólks og segist hann alveg verða var við það að fólk stoppi til að skoða graskerin.
„Ég sé fólk stoppa og taka myndir. Svo veit ég að leikskóli sonar míns hefur farið í gönguferð til að skoða.“
Systir mín er svo vel gift. Eiginmaður hennar gerði þessi grasker. Hvernig er þetta bara hægt?@BThorlacius pic.twitter.com/NpI7R6beXz
— Áslaug Birna (@slaug20) October 28, 2022
Ein kvöldstund í hvert grasker
Spurður hvað þarf til að skera svona út segir Baldur að hann hafi prófað ýmislegt. „Ég keypti einhvern tímann áhöld sem eru notuð við leirlistagerð en ég týndi þeim. Ég er núna að nota ostahnífa og ostaskera og þeir virka mjög vel.“
Eru ríkar hrekkjavökuhefðir í fjölskyldunni?
„Já, við erum mjög spennt fyrir hrekkjavökunni og reynum að skreyta, meira en þetta bara. Krakkarnir eru mjög peppaðir og hafa lagt inn pantanir um hvað ég eigi að skera út næst.“
Hann segir að það fari sirka ein kvöldstund í hvert grasker og að það sé misjafnt hversu mörg hann hafi gert á hverju ári. Á síðasta ári lenti hann í því að finna engin grasker og skar út úr smjörhnetugraskeri [e. butternut squash].
Hér eru fleiri frá fyrri árum! pic.twitter.com/EDl1coIwAr
— Áslaug Birna (@slaug20) October 28, 2022
Útlitið fer eftir lagi graskersins
Í ár hefur hann skorið út þrjú grasker og þar á meðal eina górillu, eða King kong, að beiðni sonar síns.
„Hann var ekki ánægður með hana , fannst hún ekki nógu grimm górilla til að vera King Kong,“ segir Baldur.
Hann segir að það fari að miklu leyti eftir stærð graskersins hvað það verði. Veggurinn sé þrír eða fjórir sentimetrar og því þurfi að gera eitthvað sem er líkt lagi graskersins.
„Annars sker maður of mikið og fer í gegn.“
— Áslaug Birna (@slaug20) October 28, 2022