Sýningin innan skamms, aftur, lýkur í i8 galleríi um helgina. Þetta er önnur sýning Örnu Óttarsdóttur í i8 og inniheldur ný vefnaðarverk sem listamaðurinn hefur ofið á vinnustofu sinni undanfarna mánuði. Arna sækir innblástur úr minnisbókum sem geyma hversdagslegar hugdettur og teikningar listakonunnar.
Með því að umbreyta skissum í vefnað beislar hún líflega og persónulega orku sem skín í gegn í verkunum á sýningunni. Nýju verkin blanda saman abstrakt og fígúratívum þáttum, á sama tíma og þau kanna eðlislæga eiginleika efniviðarins.
Arna Óttarsdóttir (f. 1986) býr og starfar í Reykjavík. Árið 2021 voru verk hennar hluti af sýningunni Iðavöllur: Íslensk myndlist á 21. öld í Listasafni Reykjavíkur og einkasýning hennar Allt er frábært var haldin í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 2019. Verk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars á Nordatlantens brygge í Kaupmannahöfn, Turner Contemporary í Margate, Åplus í Berlín og Cecilia Hillström Gallery í Stokkhólmi.
