Þau Hulda Vilhjálmsdóttir og Hjörtur Matthías Skúlason opna í dag sýninguna Hugrún í Gallery Porti. Hulda hefur starfað sem myndlistarkona um árabil og Hjörtur er vöruhönnuður.

„Ég er mest að mála málverk en svo geri ég líka skúlptúra. Á sýningunni núna eru þetta sem sagt málverk frá mér,“ segir Hulda.

„Ég er alltaf pínu að daðra við myndlistina. Á þessari sýningu er ég að gera þrívíð verk,“ segir Hjörtur.

Yfirnáttúrulegar verur

Hjörtur og Hulda eru gamlir vinir. Fyrir ári sátu þau saman og fóru að daðra við þá hugmynd að sýna saman.

„Síðan sagði Hulda mér frá draum sem hún átti. Við byggjum sýninguna eiginlega á þessum draumi hennar. Sýningin heitir Hugrún, sem er þá hugarfóstur okkar,“ segir Hjörtur.

„Það er þessi súrrealismi sem er þemað í sýningunni, sem byggir á þessum draumi. Hann gerðist í náttúrunni og það eru verur sem heimsækja mig. Þetta er smá þráðurinn í sýningunni. En hver og einn upplifir sýninguna auðvitað á sinn hátt. En hún er byggð svolítið á yfirnáttúrulegum verum sem heimsækja okkur,“ segir Hulda.

Draumur á lérefti

Draumurinn kom til Huldu þegar þegar hún var í tjaldi í Þjórsárdal.

„Það kom svo sterkt til mín, einhver saklaus vera sem mig langaði svo mikið að túlka. Þessi vera var fyrir mér ósjálfbjarga og þurfti aðstoð og hlýju. Hér er ein mynd sem heitir engillinn, á henni er ég einmitt að reyna túlka þessa veru. Það er svolítið erfitt að túlka það sem maður upplifir í draumi yfir á léreftið. Það var smá vandi. Ég reyndi að skissa og svo kom þetta að lokum ósjálfrátt hjá okkur. Hjörtur fór að sauma dúkkur og gera keramík. Við tengjum þetta líka svo mikið við náttúruna,“ segir hulda

Sýningin er einnig að miklu leyti byggð á samtölum sem þau vinirnir hafa átt í gegnum árin.

„Ég fór sjálfur að vinna aðeins með þennan draum eftir að hún sagði mér frá honum,“ segir Hjörtur.

Listin mikilvæg

Hulda segir að hún hafi mikið unnið með drauma í verkum sínum í gegnum tíðina.

„Ég er líka með gömul verk á sýningunni sem líka tengjast draumum. Maður gerir stundum hluti ómeðvitað. Það er merkilegt hvað það tekur oft langan tíma að átta sig á samhenginu í hlutunum. Stundum set ég upp sýningar og átta mig ekki alveg á því hver stefnan er, en sé hana svo skýrt kannski nokkrum árum seinna,“ segir Hulda.

Hún segir þetta vera algengt þegar unnið er með óhlutbundna og súrrealíska hluti.

„Kannski erum við listamenn spámenn, sjáum ómeðvitað fram í framtíðina. En núna er listin svo mikilvæg. Við erum að upplifa erfiða tíma og það er eflaust gott fyrir mann að lifa aðeins í draumaheimi til að komast í gegnum þetta,“ bætir Hulda við.

Sýningin verður opnuð í dag í Gallery Porti við Laugaveg 23b og nóg verður að spritti og grímum fyrir gesti.