„Þetta er dagbók frá haustinu 2018 fram á sumarið 2020 þegar Covid var skollið á af fullum krafti,“ segir Einar Falur. „Ég hef nokkrum sinnum gert tímabundnar dagbækur í ljósmyndun og ætlaði mér upphaflega að gera dagbók í átján mánuði en vegna Covid lengdi ég tímann í tuttugu mánuði. Þegar ég byrjaði á þessu verki voru merkileg hvörf að verða í lífi fjölskyldunnar því dætur mínar voru að flytja að heiman. Svo skall Covid á. Yngri dóttir mín var send heim úr skóla í Noregi og endaði í sóttkví í sumarbústað og hin fékk ekki að koma heim frá Danmörku. Ég lauk þessari dagbók þegar hún fékk loks að koma heim og fjölskyldan var sameinuð á ný.“

Verkefni Einars Fals fjallar þó engan veginn einungis um fjölskyldu hans. „Í verkum mínum er ég alltaf að vinna með tímann og blanda saman áhugamálum sem eru hér myndlist, bókmenntir, fortíð og saga. Ég ákvað að gera verkefni þar sem ég væri ekki bara að takast á við eigið líf og fjölskyldu minnar heldur vildi ég líka skoða hinn íslenska menningarsögulega bakgrunn og spegla mig um leið í eldri menningarheimum.“

Ég ákvað að gera verkefni þar sem ég væri ekki bara að takast á við eigið líf og fjölskyldu minnar heldur vildi ég líka skoða hinn íslenska menningarsögulega bakgrunn og spegla mig um leið í eldri menningarheimum.

Spegill á Ísland

Dagbók Einars Fals teygir sig til Indlands, Rómaborgar og Egyptalands. „Undanfarin ár hef ég verið með vinnustofu um tíma á Indlandi í Varanasi, sem er elsta borg á jörðinni.

Ég ákvað að nota hana sem spegil á Ísland. Svo var ég með vinnustofu í Róm sem er borg sem hefur mótað kristna menningu okkar og myndlistina og vann svo líka á Egyptalandi sem er annar menningarsögulegur kjarni sem hefur mótað okkur.

Ég var líka að vinna með verk annarra listamanna. Tók til dæmis myndir í Róm af sömu sjónarhornum og bandaríski ljósmyndarinn Joel Sternfeld myndaði fyrir 40 árum en hann er einn þeirra listamanna sem hafa haft talsverð áhrif á mína sýn. Í Róm vann ég til að mynda líka út frá lífi og verkum ítalska meistarans Caravaggio sem lést 1610.“

Myndin er tekin í borginni Varanasi á Indlandi, árið 2019. Hún sýnir umbúnað um tímabundið hindúahof úti á götu í þessari elstu borg jarðar.
Mynd/Einar Falur Ingólfsson

Blossi í eilífðinni

Sýning Einars Fals einkennist af alls kyns tímalínum. Sem dæmi má nefna stórt verk sem samanstendur af ljósmyndum af rjóðri sem hann myndaði reglulega í tuttugu mánuði. „Þetta rjóður er griðastaður minn, þarna hangir hengirúmið mitt þar sem ég ligg og les.“ Tvær ljósmyndir frá Indlandi, teknar með árs millibili, sýna hjól sem er á nákvæmlega sama stað, það eina sem hefur breyst á einu ári er að búið er að skipta um hnakk á hjólinu og veggurinn í bakgrunni hefur verið málaður.

Tvö vídeó eru á sýningunni. „Annað þeirra er eins og stór ljósmynd og sýnir hengirúmið mitt – og svo fer að snjóa og myndin lifnar við. Hitt vídeóverkið má segja að sé hjartað eða gangverkið á sýningunni. Það sýnir fætur manns á Indlandi sem hjólar með okkur í gegnum lífið. Við erum inni í umferðinni og hávaðanum,“ segir Einar Falur.

Í tengslum við sýninguna kemur út bók sem geymir verk sýningarinnar auk fleiri verka. Opnunarmyndin sýnir indverskan dreng með logandi eldspýtu. „Þar er ég að hugsa um það hvernig líf mitt er eins og lítill blossi í þessari eilífð,“ segir Einar Falur. Hann bætir við: „Ekkert í uppsetningu sýningarinnar og samsetningu bókarinnar er tilviljun. Ég er mjög konkret í minni hugsun. En svo er það þannig að sýning eins og þessi verður til tvisvar. Fyrst hjá listamanninum og svo hjá fólkinu sem gengur inn í galleríið og býr hana til upp á nýtt.“