Sumartónleikaröðin Söngljóðasúpa í Norræna húsinu heldur áfram í dag en þá munu Íris Björk Gunnarsdóttir óperusöngkona og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari flytja aríur úr ýmsum óperum með sýnilegum hinseginleika. Auk þess mun Íris fjalla um rannsókn sína á hinseginleika á óperusviðinu á fræðandi og skemmtilegan hátt. „Hugmyndin að þessum tónleikum kviknaði fyrir nokkrum árum þegar ég áttaði mig á því hvað margar óperur eru einsleitar og stereótýpur kynjanna sterkar. Þær óperur sem ég þekkti þá voru allar um gagnkynhneigt sískynja fólk en ég þráði að sjá meiri fjölbreytileika í óperuheiminum. Ég fór að lesa mér til um efnið og sá þá að engin samantekt á hinseginleika á óperusviðinu var til. Því ákvað ég að bæta þar úr og sótti um styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir verkefni mitt, Hinseginleiki á óperusviðinu, sem ég fékk sumarið 2020,“ segir Íris Björk.

Tónleikaröðin er í samstarfi við veitingastaðinn Sónó matseljur, Norræna húsið, Reykjavíkurborg og Óperudaga, en tónleikarnir eru auk þess á dagskrá Hinsegin daga.

Hennar framlag til baráttunnar

Þegar Íris hélt áfram að þróa verkefnið sitt fann hún líka þörf fyrir að flytja þessa tónlist hérlendis og sýna þannig áhorfendum fjölbreytileikann í óperuheiminum. „Það eru til svo ofboðslega fallegar óperur sem segja sögur hinsegin einstaklinga og ég hlakka til að gera það einn daginn að veruleika að flytja einhverja þeirra í heild sinni hér á Íslandi. Tónleikarnir eru mitt framlag til jafnréttisbaráttu hinsegin einstaklinga á mínu sérsviði.

Sýnileiki er lykillinn að samþykki og á tónleikunum geri ég hinseginleikann sýnilegan gerandi það sem ég geri best, sem er að syngja.“ Tónlistin á tónleikunum spannar langt tímabil, allt frá 18. öld til dagsins í dag. „Við munum flytja aríur meðal annars eftir Händel, Alban Berg, Paulu M. Kimper og Ricky Ian Gordon. Allar aríurnar eiga það sameiginlegt að það er skýr sýnilegur hinseginleiki í óperunum þar sem þær koma fyrir. Matthildur var einn af kennurum mínum í Listaháskóla Íslands og þegar ég bar undir hana að gera þessa tónleika með mér var hún ekki lengi að svara játandi. Hún kemur því inn í verkefnið sem meðleikari á tónleikunum og ég er meiri háttar heppin með það.“

Bregður sér í mörg hlutverk

Íris bregður sér í ólík hlutverk á tónleikunum enda segist hún hafa ákveðið að vera með algerlega opinn hug varðandi raddfag þegar hún valdi tónlistina fyrir tónleikana. „Því varð það þannig á endanum að engin af þeim aríum sem ég mun syngja eru skrifaðar fyrir sóprönur, mitt venjulega raddfag. Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til þess að flytja tónlist sem ég myndi aldrei annars syngja. Þannig mun ég til dæmis syngja tenóraríuna úr einni af mínum uppáhaldsóperum, Peter Grimes eftir Benjamin Britten.

Ég bregð mér í hlutverk nokkurra lesbía, geldingssöngvara, ástsjúks unglingspilts, Gertrude Stein og útskúfaðs sjómanns. Nær allar aríurnar fjalla um ástina, bæði óendurgoldna ást og fallegar ástarsögur.“

Fjölbreyttari umfjöllunarefni

Íris hóf rannsóknina sumarið 2020 eins og fyrr segir og var hún gerð undir handleiðslu kennara hennar, Þóru Einarsdóttur óperusöngkonu. „Ég fann á fimmta tug ópera sem höfðu skýran hinseginleika og enn fleiri þar sem skynja má hinseginleikann milli línanna. Þá stóð til að halda tónleika í samstarfi við Óperudaga og Hinsegin daga, sem þurfti að fresta vegna heimsfaraldursins, en nú eru tónleikarnir loksins að verða að veruleika.“ Hún segir niðurstöður rannsóknarinnar sýna skýrt að óperum með sýnilega hinsegin einstaklinga fer fjölgandi með hverju árinu. „Flestar þeirra fjalla um fallegt samkynja ástarsamband en líka eru til óperur sem fjalla um kynleiðréttingarferli trans konu, Stonewall-uppreisnina og ofbeldi gegn hinsegin einstaklingum svo eitthvað sé nefnt.“ Viðhorf margra samfélaga er loksins að færast í átt að því að við megum öll vera við sjálf að sögn Írisar.

„Það verður því spennandi að fylgjast með þróun sýnileika hinseginleikans á óperusviðinu á komandi árum og margt bendir til þess að umfjöllunarefni ópera verði fjölbreyttari með hverju árinu sem líður. Vonandi halda ung tónskáld og óperutextaskáld samtímans áfram að nota sköpunargáfu sína til þess að semja óperur þar sem fjölbreytileiki mannlífsins er sýnilegur, bæði í sögunum sem sagðar eru og í þeim einstaklingum sem þar stíga á svið.“

Spennandi dagskrá í boði

Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Hinsegin daga. Dagskrá þeirra er fjölbreytt og er Íris spennt yfir mörgum viðburðum. „Ég hlakka alltaf til að fara í gönguna og geri það að sjálfsögðu í ár eins og alltaf. Það er úr mörgu að velja og ég ætla að fara til dæmis á einhverja af þeim fræðandi viðburðum sem eru í boði. Jafnréttisbarátta hinsegin einstaklinga stendur mér nærri hjarta og ég trúi því staðfastlega að með fræðslu verðum við öll vísari.

Fordómar verða til vegna fáfræði og því er ánægjulegt að sjá hve mikil fræðsla er í boði á Hinsegin dögum í ár. Einnig er ég spennt fyrir tónleikum sönghópsins Viðlags og svo hljómar Rocky Horror Sing-a-long líka fáránlega skemmtilegt. Innra með mér býr forfallinn söngleikjanörd þó að óperurnar eigi hug minn flesta daga.“

Mörg verkefni fram undan

Íris er búsett í Noregi þar sem hún er í mastersnámi við Óperuháskólann í Osló. „Ég er mjög ánægð í náminu og er að fá heilmikið út úr því. Við fáum að vera mikið á sviði og þroskast sem listamenn. Síðasta haust fluttum við Turn of the Screw eftir Benjamin Britten og ég var svo heppin að fá að syngja aðalhlutverkið, Governess, sem er eitt af mínum draumahlutverkum. Næsta vor mun ég taka þátt í útskriftarsýningu skólans í norsku óperunni. Þá munum við flytja La finta giardiniera eftir W. A. Mozart ásamt KORK, útvarpshljómsveit Noregs, og ég syng titilhlutverkið, hana Sandrinu.“

Næsta sumar mun Íris halda útskriftartónleika þar sem hún velur eitt hlutverk, fær aðra söngvara með sér og klippir saman styttri útgáfu af einni óperu. „Ég er ekki búin að velja hlutverk enn en hallast að því að velja eitthvað af óperum rannsóknarinnar. Flestar af þessum óperum eru skrifaðar á síðustu fimmtán árum en ég hef sérstaklega gaman af nútímatónlist og hlakka til að kafa almennilega ofan í eitt af þessum hlutverkum.“

Tónleikarnir hefjast kl. 19.30 í Norræna húsinu.