Arnarskóli er sjálfstætt starfandi skóli fyrir börn með einhverfu og önnur þroskafrávik, svokallað non profit. Skólinn var settur á fót árið 2017 og í fyrstu voru einungis fjögur börn þar við nám. Næsta haust verða þau 29, að sögn Sylvíu. „Sonur minn, Róbert Már, sem er sex ára, hefur gjörbreyst eftir að hann hóf nám í skólanum og tekið gríðarlegum framförum. Róbert er einhverfur og með alvarlega þroskahömlun. Hann tjáir sig ekki en sýnir líðan sína með hegðun. Við finnum það á honum hversu glaður hann er að fara í skólann. Við eigum skólanum því mikið að þakka og mér fannst svo sjálfsagt að gera eitthvað fyrir hann. Núna söfnum við áheitum fyrir styrktarsjóð Arnarskóla sem er við Kópavogsbraut í Kópavogi. Það er mikil þörf fyrir svona skóla. Hann er starfræktur allt árið sem hentar vel fyrir börn sem þola illa breytingar,“ segir Sylvía.

„Til að sýna skólanum þakklæti ákváðum við að skrá okkur í hlaupið, förum í 3 km þar sem ég er engin hlaupadrottning. Róbert ætlar að hlaupa þetta með okkur. Eftir skráninguna fóru að safnast peningar fyrir skólann og við vorum komin upp í 87 þúsund þegar ég vildi gefa aðeins meira í þetta. Þá datt mér í hug að tilkynna á Facebook að ég myndi syngja lag þegar söfnunin væri komin upp í 100 þúsund og pósta því á samfélagsmiðilinn. Ég ákvað að fá Valdimar, bróður minn, með mér í eitt lag til að draga fleiri að. Hélt að þetta yrðu svona þrjú myndbönd þar til hlaupið yrði 22. ágúst,“ segir Sylvía en bróðir hennar er hinn frægi Valdimar Guðmundsson söngvari.

„Þetta sló rækilega í gegn þannig að fyrstu þrjú myndböndin urðu til á einum sólarhing. Áheitin ruku í gang,“ segir Sylvía en söfnun hennar er komin í yfir 500 þúsund krónur. Sylvía tekur lagið á Facebook eftir hverjar 50 þúsund krónur svo hún hefur tekið nokkur vel valin lög, með Valdimar bróður sínum, föður, afa og fleirum. Búast má við að meira verði sungið næstu þrjár vikurnar.

Sylvia segist alls ekki vera söngkona og eingöngu sungið á karaoke-börum á Spáni hingað til. „Ég hef alveg látið Valda bróður um sviðsljósið,“ segir hún. „Þetta bara sprakk út og það er bara virkilega skemmtilegt þegar maður er að láta gott af sér leiða. Vinabeiðnir hafa stóraukist hjá mér og fólk hefur verið að deila söngnum. Ég hef fengið miklu meiri athygli en ég bjóst nokkurn tíma við. Það er mikil tónlist í fjölskyldunni, báðir foreldrar mínir eru góðir söngvarar. Föðurbróðir minn, Karl Hermannsson, var til dæmis eitt sinn í Hljómum. Það er mikil áskorun fyrir mig að bresta í söng og deila því á Facebook og ég hef alls ekki hug á að leggja það fyrir mig,“ segir hún og hlær.

Sylvía segir að hana hafi upphaflega langað að setja sér 500 þúsund króna markmið en hún hafði ekki trú á að það myndi takast. Söfnunin hefur því farið fram úr björtustu vonum. „Allt sem safnast er dásamlegt og þeim mun meira því betra. Það kostar mikið að girða stóra skólalóð og kaupa leiktæki. Okkar söfnun er alla vega nægileg til að byrja verkið. Margt smátt gerir eitt stórt.“


Þeir sem vilja styrkja Arnarskóla geta farið inn á hlaupastyrkur.is og gefið í söfnunina Team Róbert.