Sylvía Erla Mel­sted er fjöl­hæfur lista­maður sem bæði syngur, skrifar og býr til kvik­myndir. Hún kom ný­lega fram í mynd­bandi á vegum fyrir­tækisins GoNoodle sem fram­leiðir mynd­bönd sem hugsuð eru til að auka ein­beitingu barna í skólum með því að fá þau til að eyða um­fram orku með dansi og söng. Sylvía syngur lagið Bet­ter When I‘m Dancing og dansar með krökkum á vegum St. Jude's barna­spítalanum í Banda­ríkjunum.

„Þetta var geggjað. Við náttúr­lega þurftum að nýta tæknina og leik­stjórarnir voru bara á Zoom á meðan við vorum að taka upp af því vorum á Ís­landi,“ segir Sylvía um fram­leiðslu mynd­bandsins.

Vill sýna fólki að les­blindir geta gert allt

Sylvía gaf á dögunum út barna­bókina Oreo fer í skólann sem fjallar um les­blindan hund sem er strítt í skóla en lærir svo ýmsar leiðir til að takast á við þetta nýja verk­efni. Sylvía er sjálf les­blind en hún gaf einnig út heimildar­myndina Les­blindu síðasta vetur sem fram­leidd var af Sagafilm og hefur hún haldið fjöl­marga fyrir­lestra um mál­efnið.

„Ég er að reyna að sýna fólki að þó það sé með les­blindu þá getur það samt allt sem það ætlar sér. Les­blinda getur líka verið styrk­leiki, maður þarf bara að læra að vinna með hana og búa til sínar að­ferðir en maður getur samt gert allt,“ segir Sylvía.

Þá bætir hún við að henni finnist skemmti­legt hvernig GoNoodle verk­efnið tengist inn í öll hennar fyrri verk­efni.

„Þess vegna var það svo­lítið fyndið þegar ég fékk þetta sím­tal í CO­VID. ‚Hey, Sylvía viltu taka þátt í þessu verk­efni?‘ Af því að þau eru að efla krakka til þess að fá út­rás í skóla til þess að hafa betri ein­beitingu. Þannig það er fyndið hvað þetta tengist allt,“ segir Sylvía.

Sylvía Erla ásamt hundinum sínum Oreo sem er líka söguhetja bókar hennar Oreo fer í skólann.
Mynd/Aðsend

14 milljón börn nota GoNoodle í hverjum mánuði

Mynd­böndin frá GoNoodle eru notuð í skóla­stofum í 4 af hverjum 5 ríkis­reknum grunn­skólum í Banda­ríkjunum auk þess sem um 14 milljónir barna víða um heim horfa á þau í hverjum mánuði. Ekki hefur mikið borið á því að GoNoodle sé notað í skólum hér á landi en Sylvía segist vonast til þess að breyting verði þar á.

„Ég hef alla­vega ekki heyrt það en að mínu mati ætti náttúr­lega að setja þetta inn því það er al­gjör snilld að krakkar fái fimm­tán mínútur til að syngja og dansa og hafa gaman og fá út­rás. Síðan setjast þau niður og læra og þetta hjálpar,“ segir Sylvía.

Sylvía segir margt vera á döfinni hjá sér en hún er að fara að gera út nýtt lag í tengslum við bókina sína Oreo fer í skólann og segist vera að vinna að því að breyta bókinni í teikni­mynd í sam­starfi við er­lenda aðila

„Það er bara geggjað að opna á þetta og að fólk sjái þig. Og líka mjög gaman að vera partur af því að efla krakka að dansa og hafa gaman og fá út­rás til þess að hjálpa þeim að læra. Þannig að þetta bara passar inn í allt sem ég er að gera eins og stendur,“ segir Sylvía að lokum.