Það var árið 2002 sem einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, Páll Óskar, og hörpuleikarinn Monika héldu jólatónleika í fyrsta sinn saman. Fyrst um sinn spiluðu þau árlega í Fríkirkjunni en síðustu ár hafa jólatónleikarnir verið haldnir í Háteigskirkju, sem skipar sérstakan sess í hjarta Páls og það af góðri ástæðu.

„Ég ber mjög sterkar taugar til Háteigskirkju. Pabbi minn og mamma kynntust í henni. Þau kynnast árið 1953, þegar mamma er sautján ára og pabbi tvítugur. Þau voru bæði í söngnámi hjá Sigurði Birkis. Háteigskirkja var enn í byggingu á þessum tíma, þannig að kirkjulegu athafnirnar fóru fram í Sjómannaskólanum. Pabbi og mamma kynnast sem sagt í Háteigskirkjukórnum og skömmu síðar fara þau að hrúga niður börnum,“ segir Páll Óskar.

Margrét og Hjálmtýr, foreldrar Páls, voru því bæði söngelsk, en Páll er yngstur af sjö systkinum.

„Þau sungu mikið bæði ein og sér en voru líka mjög dugleg í kórstarfi. Á tímabili leið mér eins og þau væru í þremur kórum í einu, því þegar ég er fjögurra eða fimm ára gamall draga þau mig á allar kóræfingar með Skagfirsku söngsveitinni og Pólýfónkórnum. Svo alltaf á sunnudögum í Fríkirkjukórnum. En af því þau drógu mig alltaf með, þá varð það svo eðlilegt fyrir mér að syngja og það fyrir framan annað fólk.“

Páll Óskar var söngleskur frá blautu barnsbeini.
Fréttablaðið/Stefán

Ekkert hallærislegt að koma fram

Hann segist því heppinn að hafa aldrei upplifað það sem hallærislegt eða skrýtið að koma fram og syngja fyrir framan aðra.

„Ólíkt því sem gerist hjá öðrum krökkum, sem jafnvel hreinlega óttast það að koma fram. En allur þessi ótti, sem svo margir finna fyrir, er tekinn frá mér með móðurmjólkinni. Það að halda jólatónleika í Háteigskirkju er því mjög táknrænt, ég er í raun að þakka fyrir mig og það hvaðan ég kem. Það eru ákveðnar rætur sem liggja þarna. Síðan fyrir utan það að Háteigskirkja hljómar svo gríðarlega fallega, hljómburðurinn er svo mikið æði,“ segir Páll.

Hann segir það mikinn kost að sætavalið sé frjálst og það skipti engu máli hvar maður situr.

„Ég get labbað á milli gestanna. Ég er nánast ofan í áhorfendum, ég næ nánast augnsambandi við hvern einn og einasta. Þannig að þessi nálægð er svo ótrúlega skemmtileg, en mér finnst það algjörlega galdurinn við þessa tónleika.“

Páll segir að öll hans helstu lög verði að sjálfsögðu spiluð, þar á meðal Sjáumst aftur og A Spaceman Came Travelling. Svo verða hans helstu popplög líka sett í jólabúning og í útsetningu fyrir strengi og kór. Páll og Monika lögðu svo sérstaklega upp úr því að stilla miðaverðinu í hóf.

Tónleikarnir eru þann 30. nóvember og 1. desember, en svo viku síðar eru einnig tónleikar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Miða er hægt að nálgast á midi.is.

Monika og Páll munu að sjálfsögðu taka alla helstu slagarana á tónleikunum.
Fréttablaðið/Stefán