Ingibjörg Ásta hefur alla tíð haft áhuga á mat og menningu og tileinkað sér matargerð þeirra landa þar sem hún hefur dvalið, sérstaklega í héraðinu Provence í Suður-Frakklandi og líka í Marokkó. „Það að máta matinn í maganum lærði ég í Frakklandi. Ég borðaði ekki mat nema mig langaði í hann og eingöngu sem fór vel í maga eða mat sem mér leið vel af,“ segir Ingibjörg Ásta og bætir við að í Frakklandi hafi hún lært mest í matargerð og að njóta matarins. „Ég datt algerlega inn í þetta matarsamfélag og naut mín í botn.“

Ingibjörg lærði að setja saman matseðla og búa til mat úr fersku hráefni, nota það grænmeti sem uppskeran bauð upp á hverju sinni.

Eldað úr ferskasta hráefninu

Þegar Ingibjörg Ásta kom aftur heim eftir að hafa dvalið í Frakklandi og Marokkó í liðlega tólf ár varð áhugamál hennar að atvinnu. Hún opnaði Mensu Café og síðar Mensu veisluþjónustu.

Í dag rekur Ingibjörg Ásta ásamt eiginmanni sínum Þorsteini Bergssyni og fleirum Hótel Flatey. „Þegar eina gistihúsið í Flatey hætti tók Minjavernd að sér uppbyggingu pakkhúsanna og þessi þrjú gömlu veðurbörðu hús gengu í endurnýjun lífdaga sem hótel og veitingastaður. Við erum sex sem stöndum að rekstrinum og eigum hlut í honum.“

Ingibjörg Ásta og vinkona hennar Ingunn Jakobsdóttir unnu baki brotnu frá upphafi við að byggja upp og hlúa að þessum rekstri sem í dag er í blóma. En Hótel Flatey komst á laggirnar árið 2006. Þar naut Ingibjörg Ásta sín í eldhúsinu þar sem hún matreiddi úr hráefninu úr firðinum og uppskerunni sem í boði var, eins hún hafði lært í Frakklandi.

Bláskelin vinsælust í Flatey

Árið 2016 gaf Ingibjörg Ásta út matreiðslubók sem ber heitið Mensa – matur, minningar og litlir hlutir sem skipta máli. Hér er um að ræða nokkuð óvenjulega matreiðslubók en í henni eru uppskriftirnar kryddaðar með sögu hennar sjálfrar í máli og myndum. „Það eru gjarnan litlu atburðirnir í lífinu sem lifa áfram með mér og í bókinni er sagan mín sögð af ferlinum.“

Ingibjörg Ásta var í þættinum Matur og heimili á Hringbraut á dögunum þar sem hún svipti hulunni af tveimur sælkerauppskriftum sem fylgja sögu hennar. Annars vegar er um að ræða syndsamlega ljúffengt rataouille og hins vegar heimsins bestu uppskrift að bláskel úr Breiðafirðinum. Hér deilir hún uppskriftunum með lesendum.

„Rataouille er franskur grænmetisréttur sem oft er borinn fram með kjöti en er líka góður einn og sér. Einnig þykir hann herramannsmatur kaldur og inni í eggjaköku.“

Bláskelin hefur í áranna rás verið einn vinsælasti rétturinn á Hótel Flatey og enginn verður svikinn af þessum réttum sem Ingibjörg Ásta býður lesendum upp á.

Bláskelina er einfalt að matreiða og flestum finnst hún vera hið mesta lostæti.

Grænmetisréttur við allra hæfi. Rataouille með alls kyns grænmeti. Bæta má kjöti í réttinn ef fólk vill það.Fréttablaðið/Anton Brink

Rataouille

1 kg vel þroskaðir tómatar

2 laukar

2 eggaldin

2 kúrbítar

3 paprikur

1 lárviðarlauf

1 hvítlauksrif

2 greinar timían

2 greinar rósmarín

2 greinar steinselja

2 dl ólífuolía

Salt og svartur pipar

Sjóðið vatn í potti, dýfið tómötunum ofan í og látið þá liggja í tvær mínútur áður en þeir eru skrældir, skornir niður og settir í þykkbotna pott með loki. Flysjið laukinn og skerið hann í hringi. Skolið eggaldin og kúrbít, skerið endana af og hendið en restina í sneiðar. Paprikurnar eru fræhreinsaðar og stilkurinn skorinn frá, skerið þær svo í báta, frekar grófa.

Takið stóra pönnu, hellið helmingi olíunnar á hana, steikið fyrst laukinn glæran og setjið hann í pottinn ofan á tómatana, síðan eggaldinsneiðarnar og þá paprikubátana og síðast kúrbítinn.

Bætið olíu á pönnuna eins og þarf til að steikja grænmetið. Þá eru kryddjurtirnar settar í pottinn ásamt lárviðarlaufinu og mörðu hvítlauksrifi. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið lok á pottinn og leyfið grænmetinu að malla við vægan hita í 30 mínútur.

Hrærið varlega tvisvar eða þrisvar á meðan grænmetið sýður svo það merjist síður. Bitarnir haldast þá heilir og rétturinn verður fallegri.

Ef svo færi að beiskt bragð fyndist í lok suðunnar, bætið þá við 1 teskeið af sætuefni, eins og til dæmis agave-sírópi, hunangi eða einum sykurmola.

Bláskel er í uppáhaldi hjá mörgum. Hún er einstaklega góð í Breiðafirðinum.

Bláskel úr Breiðafirði

fyrir 6

1 net ferskur kræklingur

3 dl hvítvín

2 skallottlaukar

¼ rauður, ferskur chillipipar

3 cm ferskt engifer

1 meðalstór gulrót

1 sítróna til skreytingar

4 kvistir steinselja

3 kvistir kóríander

Hreinsið kræklinginn, hendið brotnu skeljunum og skolið hann vel í köldu vatni. Afhýðið laukana og skerið þá mjög smátt. Skerið einnig chillipiparinn, gulrótina og engiferið.

Olían er sett í góðan, djúpan pott og þegar hún fer að hitna er laukurinn látinn krauma fyrst, þá gulrótin, engiferið og síðast chillipiparinn. Þá er hvítvíninu bætt út í kryddblönduna og svo er kræklingurinn settur ofan í og lok sett á pottinn sem er á hæsta straumi eða eldi.

Hrærið með sleif, tvisvar eða þrisvar, og látið sjóða þar til allar skeljarnar eru búnar að opna sig. Það tekur einungis 2-3 mínútur. Stráið steinselju og kóríanderblöðum yfir kræklinginn og skreytið með sítrónubátum.