Margir halda í á­kveðnar matar­hefðir sem hafa fylgt fjöl­skyldum í áranna rás þegar sumar­deginum fyrsta er fagnað. Einnig breytast matar­hefðir fólks á sumrin og farið er í sumar­legri og léttari kræsingar.
Jarðar­berja­terta mömmu í til­efni sumar­dagsins fyrsta

Sig­ríður Björk Braga­dóttur er mat­reiðslu­meistari og annar eig­enda Salt Eld­húss, jafnan kölluð Sirrý. „Ég held alltaf upp á sumar­daginn fyrsta. Mamma bakaði alltaf flotta tertu í til­efni dagsins og það geri ég líka; jarðar­berja­tertu með fánum og skrauti. Ís­lensku jarðar­berin eru stundum þroskuð og komin í búðir og þá ég nota þau. Deginum er eytt í kaffi­boði með fjöl­skyldunni, börnum og barna­börnum,“ segir Sirrý.

Breytist matar­gerð og baksturinn á sumrin?

„Já, síldin fer út á­samt mörgu öðru sem maður tengir við veturinn, eins og matar­miklar súpur, hægeldaðir pott­réttir og þungur matur. Baksturinn breytist ekki svo mikið, ég baka alltaf mikið, finnst það bara svo rosa­lega gaman.
Ég forðast trans­fitu (unna mat­vöru) eins og ég get þannig að ég tek með heima­bakað, til dæmis grófa hjóna­bands­sælu, í ferða­lög innan­lands.“

Hvernig myndir þú lýsa matar­hefðum og venjum fjöl­skyldunnar yfir sumar­tímann?

„Við borðum léttari mat. Alls konar hrása­löt eru vin­sæl með kjöti og fiski. Ég á alltaf ristaða sól­kjarna, sesam­fræ og gras­kers­fræ í krukku til að henda á salatið sem er bæði svo gott og líka að fá víta­mínin,“ segir Sirrý.

Kálfakjöt með túnfiskssósu er sælgæti og afar vinsæll réttur á Ítalíu.
Fréttablaðið/Ernir

Sumar­legur réttur með ­­kálfa­kjöti í tún­fisks­sósu

Áttu þér sumar­rétt sem þér finnst mikil­vægt að fram­reiða og fagna komu sumarsins með, sem þú vilt leyfa les­endum að njóta?

„Já, mig langar að gefa upp­skrift að léttum rétti með kálfa­kjöti og tún­fisks­sósu en þann rétt hef ég oft á sumrin. Hann er hægt að út­búa með fyrir­vara, ein­faldur og mjög góður. Ég var með ítalskt þema í fermingar­veislu yngri sonar míns og bar fram þennan rétt á veislu­borðið. Mágur minn er ítalskur og hjálpaði til við að velja og elda með mér réttina.“

Við fengum Sirrý líka til að svipta hulunni af sínum upp­á­halds eftir­rétti til að full­komna mál­tíðina.

„Eftir­rétturinn sem ég gef upp­skrift að er í miklu dá­læti. Hann er svo ein­faldur og ljúffengur eins og svo margt í ítalskri matar­gerð.“

Ítalska mat­reiðslu­bókin ­­Silfur­skeiðin var tekin fyrir

Sirrý er iðin við að elda og prófa sig á­fram með því að elda upp úr völdum mat­reiðslu­bókum en það gerir hún í góðum hópi.

„Ég er í mat­reiðslu­bóka­klúbbi sem hittist á sex vikna fresti og eldar saman upp úr valdri mat­reiðslu­bók sem allir klúbb­fé­lagar kynna sér. Síðast tókum við fyrir ítölsku Sil­ver Spoon-bókina sem er líka til þýdd á ís­lensku og heitir Silfur­skeiðin. Þá mættu tólf klúbb­með­limir og við elduðum 26 rétti upp úr bókinni sem voru allir mjög góðir og var kálfa­kjötið með tún­fisknum ein­mitt einn af þeim réttum. Þetta var skemmti­leg leið til að kynnast frá­bærri bók sem geymir hvorki meira né minna en 1.258 blað­síður.“

Gratineruð ber með zabaione-sósu er dásamlegur endir á ljúffengri sumardagsmáltíð.
Fréttablaðið/Ernir

Vitello tonnato fredd­o – Kálfa­kjöt með tún­fisks­sósu

Magn: Fyrir 6

800 g kálfa­kjöt, t.d. lær­vöðvi
1 gul­rót
1 laukur
1 sellerí­stöngull
1 msk. hvít­víns­edik
1 msk. ó­lífu­olía

Setjið vatn og salt í meðal­stóran pott og látið suðuna koma upp. Skerið græn­metið gróft niður. Bætið því í pottinn á­samt hvít­vínsediki og ó­lífu­olíu og kjötinu í heilum klump. Látið þetta sjóða við hægan hita í 2 klst. Látið kólna í soðinu. Takið kjötið upp út soðinu en geymið 2-3 msk. af soðinu til að nota í sósuna. Skerið það þunnt niður og raðið fal­lega á fat. Hellið sósunni yfir og skreytið með st­rimlum af chili eða papriku og ka­pers. Þetta má gera með góðum fyrir­vara og láta bíða 2 til 4 klst. með sósunni á til að kjötið taki í sig bragð af henni. Kjötið má undir­búa og sjóða daginn áður. Berið fram með fersku grænu salati.

Sósan

200 g tún­fiskur í dós, skola olíu frá
3 ansjósu­flök
2 msk. ka­pers
2 harð­soðin egg, bara nota rauðurnar
3 msk. ó­lífu­olía
1 sítróna, safi úr henni

Setjið allt nema olíu og sítrónu í mat­vinnslu­vél og maukið. Bætið þá við olíu á­samt 2 til 3 msk. af soðinu af kjötinu og sítrónu.

Gratin di frutti allo za­ba­ione – Gratineruð ber með za­ba­ione-sósu

Fyrir 4

500 g blönduð ber
3 eggja­rauður
50 g sykur
2 msk. Grand Mariner
½ sítróna, börkur af henni
Mynta (má sleppa)

Skolið, þerrið og raðið berjum á fjóra diska og skerið þau sem eru stór í tvennt. Setjið egg, sykur og Grand Mariner í skál yfir vatns­baði og þeytið saman þar til fer að þykkna. Ekki samt láta þetta sjóða. Takið af hitanum og bætið sítrónu­berki út í. Hellið sósunni fal­lega yfir berin. Brennið með brennara til að fá sykur­húð ofan á. Skreytið með myntu, ef vill. Ef þið eigið ekki brennara er líka hægt að grilla sósuna á berjunum undir grilli en þá þarf að passa að diskarnir þoli hitann.

Gleði­legt sumar!