Ástríða Elenoru á bakstri byrjað strax í bernsku og á hún margar minningar í tengslum við nýbakaðar og ilmandi kræsingar. „Mamma bakaði mikið heima þegar ég var lítil og ég hljóp oft beint heim eftir skóla og þá biðu mín kleinur eða ömmusnúðar. Það mætti segja að áhuginn hafi byrjað þar. Síðan þá hef ég bara blómstrað í bakstrinum enda hef ég fengið mögnuð tækifæri í gegnum námið og kynnst stórkostlegu fólki,“segir Elenora sem er á því að mamma hennar hafi kveikt áhuga hennar á bakstri með sínum heimagerðu kræsingum.

Desember er uppáhalds mánuður Elenoru

Hvernig lítur desembermánuður út hjá þér, ertu búin að skipuleggja desember? „Desember er vanalega stútfullur af skemmtilegum viðburðum og uppákomum hjá mér. Ég á afmæli á Þorláksmessu og er mikið afmælisbarn. Ég er dugleg að baka allskyns smákökusortir en í fyrra var fyrsta sortin sem ég bakaði lakkrístoppar sem ég bakaði með Liv Sunnevu bestu vinkonu minni en við endurtókum þá hefð í ár. Framundan eru jólatónleikar, samverustundir með fólkinu mínu, heitir kakóbollar, vonandi ein eða tvær sleðaferðir, afhending á minni fyrstu íbúð, afmælið mitt, jólin og áramótin,“segir Elenora full tilhlökkunnar.

Elenora heldur í ákveðnar jólahefðir og siði frá bernskuárunum sínum sem hún segist alls ekki geta breytt. „Ég er mikil hefðarkona og held fast í þær sem eru frá mínum bernskuárum en elska einnig að búa til mínar eigin. Það koma varla jól hjá mér nema ég búi til sörur, horfi á Christmas Carol með bróðir mínum og sendi jólakort en ég elskaði einnig fátt meira en að fá jólakort inn um lúguna sem barn. Við erum alltaf með það sama í matinn og því má alls ekki breyta enda besti matur heims.“

Uppáhalds matur Elenoru er hamborgarahryggur. „Við erum alltaf með hamborgarahrygg á aðfangadag og hangikjöt á jóladag ásamt meðlæti. Ég er mjög hrifin af hvorutveggja en hamborgarahryggurinn ávallt efstur á mínum lista. Þegar kemur á smákökunum er Elenora með það á hreinu. „Ég hef elskað sörur frá því ég var lítil smástelpa, þær eru klárlega mínar uppáhalds.“

Lumar þú nokkuð á syndsamlega góðri uppskrift af jólabrauði sem þú ert til í að deila með lesendum? „Ó,já. Aspassúpa er algengur forréttur hjá mörgum á jólunum en hér erum við með syndasamlega gott aspasréttabrauð sem er okkar jólabrauð. Við elskum öll gamla góða aspasréttinn sem leynist í öllum góðum íslenskum veislum en hér bæ höfum við brauð sem minnir hvað mest á þann rétt. Brauðið ilmar dásamlega og er gott með góðu osatasalati, með súpunni eða einfaldlega nýristað á jóladagsmorgun með nóg af smjöri.“ Elenora deilir hér með lesendum líka tveimur uppskriftum af sínum uppáhalds brauðsalötum sem hún segist ekki geta verið án.

FBLElenora Rós Georgsdóttir6876.jpg

Jólasúrdeigsbrauð - Aspasbrauð að hætti Elenoru Rós

 • 550 g sterkt hveiti
 • 100 g heilhveiti
 • 500 ml volgt vatn
 • 125 g fordeig
 • 15 g salt
 • 50 g skinka
 • 1 pakki aspassúpuduft
 • Hálf dós af aspas
 • 100 g rifinn ostur

Fordeig:

 • 25 g hress súr
 • 50 g volgt vatn
 • 50 g sterkt hveiti

Aðferð:

 1. 08:00 Byrjið á að blanda saman fordeiginu. Þá fer allt saman í skál og hrært með sleif eða höndunum. Þetta fær að standa við stofuhita í 7 klukkustundir með viskustykki yfir skálinni.
 2. 14:00 Eftir 6 klukkustundir af fordeigshefun byrjið þið að blanda saman hveiti, heilhveiti, fordeigi, salti og vatni í annari skál. Blandið þessu saman með höndunum þar til það er allt komið saman. Deigið fær að standa í skálinni með viskustykki yfir í einn klukkutíma.
 3. 15:00-16:30 Þá er kominn tími til að toga og brjóta deigið. Deigið er togað og brotið 3x með hálftíma hvíld á milli. Deigið er togað og brotið með því að fara undir deigið, toga það upp og leggja yfir á hina hliðina, skálinni er snúið um 45° og gert hið sama allan hringinn. Þegar deigið er togað og brotið í annað skipti er skinkunni, aspasnum, aspasduftinu og ostinum bætt saman við og það togað og brotið inn í deigið.
 4. 16:30-17:00 Núna fær deigið að hvíla í skálinni í hálftíma.
 5. 17:00 -17:30 Eftir þennan hálftíma er deiginu skipt í tvennt, léttmótað í tvær kúlur og kúlurnar látnar standa með viskustykki yfir á borðinu í hálftíma.
 6. 17:30 Núna eru deigin fullmótuð, sett í hveitistráða hefunarkörfu og beint inn á kæli yfir nótt.
 7. 08:00 Næsta dag kveikið þið á ofninum, stillið á undir og yfir hita og hafið hann eins hátt stilltan og hægt er, helst 250°C og yfir. Setið steypujárnspottinn inn í ofninn og leyfið pottinum að forhitna inn í ofninum í klukkutíma.
 8. 09.00 Eftir þennan klukkutíma er deiginu hvolfað úr körfunni og á smjörpappír og skorið fallega í brauðið.
 9. Takið pottinn snögglega úr ofninum, setjið brauðið snögglega í pottinn með pappírnum og setjið lokið á pottinn. Potturinn fer þá beint inn í ofninn og ofninn er lækkaður niður í 240°C og bakað með lokinu á í 20-25 mínútur.
 10. Svo er lokið tekið af pottinum, ofninn lækkaður í 220°C og bakað í 20-25 mínútur í viðbót eða þar til þið getið bankað undir brauið og það heyrist tómahljóð og er fallega gullinbrúnt á litinn.
Elenora Rós Georgsdóttir6873.jpg

Ostasalat

1 stk. Hvítlauksostur

1 stk. Mexíkóostur

1 stk. Piparostur

1 dós sýrður rjómi

100 g majónes

1 rauð paprika

Vínber eftir smekk

Dass Tabasco sósa

Dass Basilíku krydd

 1. Blandið saman majónesi og sýrðum rjóma.
 2. Skerið niður paprikuna, vínberin og ostana.
 3. Blandið öllu saman.
 4. Bragðbætið með Tabasco og Basilíku kryddi.

Eggjasalat

6 stk. harðsoðin egg

1 lítil dós majónes

1-2 tsk. karrý krydd

 1. Skerið harðsoðnu eggin niður með eggjaskerara.
 2. Setjið eggin og karrýið saman við majónesið og hrærið þar til allt er komið vel saman.
Elenora Rós Georgsdóttir6867.jpg

„Við elskum öll gamla góða aspasréttinn sem leynist í öllum góðum íslenskum veislum en hér bæ höfum við brauð sem minnir hvað mest á þann rétt.“/FRÉTTABLAÐIÐ ANTON BRINK.

Elenora Rós Georgsdóttir6869.jpg

Elenora Rós Georgsdóttir6865 1.jpg