Á ferðalögum sínum er Sirrý iðin við að kynnast hefðum og siðum heimamanna í matargerð og læra að útbúa þá rétti sem vinsælir eru á hverjum stað fyrir sig og fá að heyra um uppruna réttanna sem hún fellur fyrir. Sirrý er nýkomin heim frá landinu sem oft er kallað matarkistan og sviptir hér hulunni af einum sínum uppáhaldsréttum sem er afar vinsæll á þessum árstíma hjá heimamönnum.

„Ég er nýkomin frá Frakklandi og þar eru allir að fá sér Croque monsieur á bistróum og veitingahúsum með léttan mat. Frakkar borða eftir árstíðum og nú eru súpur og bráðinn ostur vinsælt í kuldanum eins og hér heima. Brauðið eða samlokan er ekta bistro-matur og á sér langa sögu. Í byrjun árs 1900 var það kokkur á bistró-veitingahúsi í París sem gerði þessa samloku líklega fyrstur. Baguette-samlokur eru vinsælar á börum og bistróum en kokkurinn var búinn með baguette-birgðir í húsinu og ákvað að nota „pain de mie“ eða samlokubrauð í samloku og kallaði hana samloku dagsins. Síðan hefur svona samloka verið mjög vinsæl um allt Frakkland. Matarmeiri útgáfa er með spældu eggi ofan á og er kölluð Croque madam eða samloka frúarinnar,“ segir Sirrý.

„Hér er uppskrift að ekta Croque monsieur. Það þýðir að í henni er béchamel-sósa sem er jafningur sem við köllum gjarnan uppstúf. Ekki láta fæla ykkur frá þó það sé pínu fyrirhöfn að gera sósuna, aðferðin er undirstaða í svo margt í matreiðslu eins og plokkfisk, uppbakaðar súpur og sósur, uppstúf, tartalettur, lasagna og svo ótal margt fleira. Lítill vandi er að gera sósuna, bara passa að setja mjólkina ekki alla í einu út í smjörbolluna og vera með písk á kantinum. Með því að hafa sósuna með ostinum á brauðinu verður það sérlega djúsí og gott. Brauðið getur verið hvaða brauð sem er, súrdeig, gróft eða bara franskbrauð en Frakkarnir nota það og er það kallað „pain de mie“ og er örlítið sykrað hvítt brauð,“ segir Sirrý að lokum og veit ekkert dásamlegra en að njóta þessara syndsamlegu ljúffengu Croque monsieur með bræddum osti á köldum vetrardegi.

Croque monsieur samlokur.

Croque monsieur

4 samlokur

8 sneiðar brauð

4 sneiðar góð skinka

200 g rifinn ostur, mjög gott að nota fullfeitan

1 uppskrift bécamel-sósa

Hitið ofninn í 220°C. Raðið brauðsneiðunum á borðið og skiptið béchamel-sósunni jafnt á þær. Það fer um það bil 1 góð matskeið á hverja. Smyrjið sósunni á brauðsneiðarnar og vel út á jaðrana. Dreifið rifna ostinum ofan á sósuna. Setjið nú sneið af skinku á 4 brauðsneiðar. Setjið þær sem ekki er skinka á ofan á skinkubrauðsneiðarnar svo þið fáið 4 samlokur. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og samlokurnar á hann. Bakið í 15 mínútur, eða þar til þær eru gullnar og girnilegar. Berið fram með grænu salati með vinagrettu.

Béchamel-sósa

25 g smjör

25 g hveiti

3 dl mjólk

1 tsk. Dijon-sinnep

½ tsk. salt

Svartur pipar

Bræðið smjör í potti. Bætið hveiti út í og hrærið saman í smjörbollu. Bætið mjólk út í smátt og smátt (mikilvægt) og hrærið í allan tímann. Notið sleif og písk ef á þarf að halda til að fá kekkjalausan jafning. Sjóðið við vægan hita stutta stund til að fá hveitibragðið í burtu. Saltið og malið pipar yfir. Bætið sinnepi út í og hrærið allt vel saman. Smakkið og bætið salti ef þarf. Berið fram á fallegan hátt og njótið hvers munnbita.