Menning

Syndir nágranna

Glæpasaga sem er allt of lengi að komast í gang, en verður síðan ansi spennandi.

Bækur

Konan í glugganum

***

Höfundur: A.J. Finn

Þýðandi: Friðrika Benónýsdóttir

Útgefandi: JPV 2018

457 bls.

Konan í glugganum, fyrsta skáldsaga A.J. Finn, var seld til fjörutíu landa áður en hún kom út á frummálinu. Ekki kemur á óvart að til standi að gera kvikmynd eftir bókinni því í henni er að finna efnivið í spennumynd í anda Alfreds Hitchcock. Í bókinni er ítrekað vísað í gamlar klassískar kvikmyndir, þar á meðal rúman tug mynda eftir hinn gamla og snjalla meistara. Söguþráðurinn er einnig í anda Rear Window, einnar frægustu myndar Hitchcocks. Þar var James Stewart fastur í hjólastól í íbúð sinni og hafði lítið við að iðja annað en að fylgjast með fólkinu í næsta húsi í gegnum sjónauka, en hér er mætt til leiks Anna Fox sem hefur ekki farið út úr húsi í tæpt ár, en hún þjáist af víðáttufælni. Hún dundar sér við að fylgjast með nágrönnum sínum út um gluggana milli þess sem hún horfir á gamlar svarthvítar kvikmyndir og étur pillur og skolar þeim niður með rauðvíni. Sú mixtúra er síst til þess fallin að viðhalda einbeitingu hennar og efla rökrétta hugsun. Eitt kvöld heyrir Anna óp og þýtur út í glugga. Hún verður vitni að óhuggulegu atviki. Mun einhver trúa henni?

Allt þetta er ágætis efni í glæpasögu, en líkt og svo margar sögur þessarar tegundar, sem hafa streymt á markað undanfarin misseri, er Konan í glugganum alltof löng. Hún er 457 blaðsíður og þegar lesandinn er búinn að lesa einn þriðja bókarinnar hefur lítið sem ekkert gerst. Það væri auðvelt fyrir lesandann að gefast upp fyrir þessu tíðindaleysi en honum skal ráðlagt að halda áfram því verkið hrekkur skyndilega í gang og spennan tekur völdin. Meðfram spennunni fær lesandinn síðan skýringu á því hvað veldur því að Anna hefur ekki treyst sér út fyrir hússins dyr svo lengi.

Konan í glugganum hefði orðið mun betri bók ef höfundur hefði haft hana styttri og snarpari. Hinar fjölmörgu vísanir í noir-kvikmyndirnar ættu að gleðja alla aðdáendur slíkra mynda, en fara líklega að mestu fram hjá þeim sem ekki þekkja til þeirra. Aðalpersónan Anna er vel sköpuð persóna en höfundurinn gerir sig sekan um full miklar endurtekningar þegar kemur að því að lýsa daglegu lífi hennar. Afhjúpunin á hinum seka kemur síðan á óvart, sem er alltaf plús í bókum eins og þessum. Mínusinn er hins vegar hversu lengi sagan er að hrökkva í gang.

Niðurstaða: Glæpasaga sem er allt of lengi að komast í gang, en verður síðan ansi spennandi.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Menning

Veröldin getur alltaf á sig blómum bætt

Menning

Fuglar í fínum fötum prýða vegginn á Hótel Laka

Menning

Sækir innblástur í menningu og popplist

Auglýsing

Nýjast

Fjöl­margir flýja Ís­lenskar sam­særis­kenningar

James Cor­d­en og Ariana Grande flytja óð til Titanic

Fjórgift þremur mönnum, þarf ekki einn til viðbótar

Varð af milljónum eftir hrika­legt klúður í spurninga­þætti

Samdi lítið lag á kassagítar til dóttur sinnar

Sund­­­ið nær­­­ir lík­­­am­­­a og sál

Auglýsing