Á dögunum hafnaði Reykjavíkurborg umsókn veitingamanns um leyfi fyrir pylsuvagni við Sundhöll Reykjavíkur. Erindið var tekið fyrir hjá menn­ing­ar-, íþrótta- og tóm­stundaráði sem komst að þeirri niður­stöðu að ekki væri „heppi­legt“ að hafa pylsu­vagn við Sund­höll­ina.

Slæpingjar og góðtemplarar

Áratugum saman hefur borgaryfirvöldum verið í nöp við rekstur pylsuvagna í Reykjavík. Árið 1939 var mikið rætt um starfsemi pylsuvagna í bæjarstjórn. Til skamms tíma hafði pylsuvögnum verið leyft að hafa opið undir morgun en vegna ófriðar í kringum vagnana var þeim skipað að hætta sölu á miðnætti.

Um þetta var skrifað í Vísi í október 1939 og pistlahöfundur sagðist ekki skilja að umhyggjan fyrir almannaheill gæti gengið svo langt að mönnum væri bannað að borða pylsur að næturlagi.

„Í umræðum um þetta mál hefir því verið haldið fram, að það væru slæpingjar einir, sem skiftu við pylsuvagnana, en sannleikurinn er þó sá, að hver einasti borgari hér i bæ mun hafa neytt af pylsum þeim, sem
þar hafa verið keyptar. Þetta er sameiginleg synd drykkjuræflanna og hinna, sem setið hafa á goodtemplarafundum og farið þaðan sterkir í baráttunni gegn áfengisbölinu, en með tóman maga.“

Argvítug svínastía

Árið 1942 er farið að sjóða upp úr í umræðu um syndavagnana í Reykjavík. Pylsuvagnarnir séu argvítug svínastía þangað sem komi fullir menn út úr knæpum og skúmaskotum snapandi sér fæðu. Fáeinir vörðu pylsuvagnana, það gerði Guðrún Guðlaugsdóttir sem barði í borðið og sagði á bæjarstjórnarfundi í desember þetta ár: „Pylsuvagnamir eru þarfir. Margir þurfa að fá sér mat og geta ekki fengið hann annars staðar, sagði hún og blandaði Valtý Stefánssyni þá bæjarfulltrúa í málið og sagði hann samþykka pylsuvögnum enda hafi hann sagt gott að geta fengið sér pylsu þegar unnið væri fram á nótt að blaðaskrifum.

Árið 1943 samþykkti bæjarstjórn að banna starfsemi pylsuvagna alfarið vegna áskorunar frá lögreglu.

Nokkrum árum seinna skrifaði maður einn aðsent erindi í Vikuna. Árið var 1964 og manninum fannst að sér vegið að geta ekki borðað pylsur um miðjar nætur vegna forræðishyggju borgaryfirvalda.

„Kæri Póstur!

Fær maður aldrei bót á þessum fjanda? Hvaða fjanda? Að venjulegir, einhleypir menn í
bænum, sem búa bara í einu herbergi, skuli verða að svelta heilu hungri milli kl. hálf eitt eða eitt og fram á morgun. Maður fær ekkert, frá því að pylsuvagninn lokar, og þangað til ein eða tvær sjoppur opna á morgnana klukkan sex eða sjö.
Maður er kannski að vinna til tvö eða þrjú og orðinn svangur, og þá fær maður ekki neitt
neins staðar, nema að bíða í þrjá eða fjóra klukkutíma. Svo maður neiðist til að fara banhungraður að sofa. Segðu mér nú, Póstur: Er ekki hægt að laga þetta? Getur maður ekki fengið magasár eða eitthvað af þessu? Og á maður bara að fá að drepast?

Með kveðju frá
Næturvinnugregori.“


Svar Vikunnar til bréfritara var fremur kaldlynt:


„Ég býst ekki við neinni bót á þessu. En þú gætir reynt að eiga einhvers konar snarl handa þér heima í herbergi sem lítið fer fyrir: Kex og gosdrykki til dæmis. Þetta geymist vel og veldur ekki miklum óþrifum. Það tefur kannski fyrir magasárinu, en annars máttu sjálfsagt drepast, ef þú endilega vilt.“