Kraftur, félag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, opnar sína fyrstu ljósmyndasýningu á Menningarnótt á laugardaginn klukkan 14:00 í Hörpu.

Ljósmyndasýningin er samstarfsverkefni Krafts og ljósmyndarans Kára Sverriss og verður sýningin fyrir utan Hörpu framyfir miðjan september.

Á ljósmyndasýningunni er tískufatnaði blandað saman við ör en allar fyrirsæturnar hafa greinst með krabbamein og bera þess merki.

„Við lögðum af stað með þetta verkefni með Kára þar sem við vörpum fram spurningunni hvað það er sem skapar manninn. Það er oft starað á félagsmenn okkar því þeir bera ör vegna meðferða og því vildum við ögra eilítið áhorfandanum og velta því upp hvort það séu fötin sem skapa manninn eða eitthvað annað. Félagsmenn okkar sýna hér ótrúlegt hugrekki með því að koma fram og bera ör sín fyrir almenningi,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Kári Sverriss er tískuljósmyndari sem hefur unnið meðal annars fyrir Glamour, L'officiel, Elle og fleiri.

„Það er alveg hreint einstakt að fá Kára Sverriss til liðs við okkur. Við erum honum og öllum hinum sem komu að sýningunni ótrúlega þakklát en þau eru öll að gefa vinnu sína,“ segir Hulda enn fremur.

„Fólki hættir oft til að fela örin sín en á þessari sýningu langaði mig að gera akkúrat öfugt þ.e. að opna fyrir örin og gera þau sýnileg í bland við fötin og fengum við tískufatnað víða. Sigrún Ásta Jörgensen stíliseraði allar fyrirsæturnar og Sara Dögg Johansen sá um hár og förðun“, segir Kári Sverriss, ljósmyndari sýningarinnar.

Ljósmyndirnar munu vera til sýnis fyrir utan Hörpuna framyfir miðjan september en Kraftur verður með sérstaka opnun á sýningunni á Menningarnótt klukkan 14 og býður alla landsmenn hjartanlega velkomna.

Ljósmyndasýningin er haldin í tilefni af 20 ára starfsafmæli Krafts og viðburðinn á Facebookmá finna hér.