Katrín Elvarsdóttir, Lilja Birgisdóttir og Nina Zurier sýna ný ljósmyndaverk í BERG Contemporary. Yfirskrift sýningarinnar er Gróður.

Nina skiptir tíma sínum milli Íslands og Kaliforníu. Spurð hvers vegna hún hafi valið að setjast að á Íslandi svarar hún: „Fyrst var það vegna hestanna og svo vegna fólksins.“

Hluti af myndum Ninu á sýningunni sýnir það sem hún kallar gervilandslag. „Ég hafði verið á Íslandi í nokkra mánuði og fór aftur til Kaliforníu. Þá datt mér í hug að búa til íslenskt gervilandslag í vinnustofu minni og mynda það. Blómin eru ekta en í bakgrunni er silfurpappír.“

Hún segist ekki vera vön að mynda blóm. „Venjulega tek ég náttúrumyndir og það að mynda blóm var eins konar æfing fyrir þessa sýningu.“

Skapar nýja sýn

Fjólublár litur er áberandi í myndum Katrínar Elvarsdóttur. Meðal ljósmyndaverka hennar á sýningunni eru myndir af bananaplöntum í Kína og úr gróðurhúsi í Hveragerði ásamt myndum af kaktusum frá Spáni. „Ég er mikil áhugamanneskja um umhverfismál og hef ferðast mikið. Á undanförnum árum hef ég fjallað æ meir um náttúruna í mínum verkum,“ segir Katrín.

„Í þessari sýningu langaði mig til að reyna á ljósmyndamiðilinn og sýna hvernig hann getur breytt hlutum og skapað nýja sýn. Möguleikarnir eru óendanlegir. Á sýningunni nota ég andstæða liti til að gera framandi heim enn meira framandi.“ Þannig verður bananaplanta á myndum hennar fjólublá og himinninn grænn.

Eitraðar jurtir

Meðal verka Lilju Birgisdóttur á sýningunni er handlituð ljósmyndaröð af eitruðum jurtum, sumar eru baneitraðar, aðrar brenna húðina við snertingu. „Ég geri þetta á gamla mátann, tek myndir á filmu og framkalla á pappír. Síðan handlita ég,“ segir Lilja. „Plönturnar eru allt öðruvísi á litinn á myndunum en í raunveruleikanum. Til að auka ógnina gef ég þeim annan lit.“

Meðal annarra verka hennar á sýningunni er handlituð ljósmynd af rjóðri. Rómantísk mynd þar sem sköpuð er gamaldags stemning. „Rjóðrið er vinsælt í listasögunni og boðar von og fegurð. Í þessu rjóðri leynast hins vegar eitraðar plöntur,“ segir Lilja.

Hún sýnir einnig ljósmyndaseríu sem byggist upp á fjórum myndum. „Í kringum risahvönn hafði vaxið villigróður, þarna voru mörg hundruð plöntur saman í haug. Ég myndaði fjórar, hverja fyrir sig og þá sér maður formin sem maður sér ekki þegar plönturnar eru allar þétt saman.“

Lilja vinnur mikið við að handmála ljósmyndir en hún vinnur einnig með ilm og skapaði sérstakan gróðurilm fyrir þessa sýningu.