Það styttist óðum í að­ventuna og jóla­ljósin eru farin að sjást víða auk þess sem ilmurinn af jóla­kræsingum er farinn að gera vart við sig í verslunum landsins. „Laufa­brauðs­fram­leiðslan er komin á fullt hjá Gæða­bakstri og laufa­brauð streymir í verslanir núna í októ­ber, nóvember og desember. Við hófum fram­leiðsluna á ó­steiktu laufa­brauði en nú er fram­leiðslan komin yfir í það steikta,“ segir Gísli Þor­steins­son sölu- og markaðs­stjóri Gæða­baksturs.

Talið er að laufa­brauðs­gerðina megi rekja til 18. aldar. Minnst er á það í orða­bók Jóns Ólafs­sonar frá Grunna­vík frá fyrri hluta aldarinnar. Þar segir að laufa­brauð sé sæl­gæti Ís­lendinga, ef marka má Wiki­pedia. Í upp­hafi var laufa­brauðs­ást­ríðan fyrst og fremst á Norður­landi en þokaðist síðan hægt suður yfir heiðar. Á liðnum ára­tugum hefur laufa­brauðið á­unnið sér fastan sess í jóla­haldi þúsunda ís­lendinga um allt land og margs konar tegundir hafa litið dagsins ljós á liðnum árum.

Allskonar útfærslur


Gísli segir að laufa­brauðið passi vel með flestum jóla­mat, með eða án smjörs, Þó séu margir sem fái sér eitt­hvað allt annað ofan á laufa­brauðið, listinn sé langur og fjöl­breyttur. „Margir kjósa það ein­tómt eða með smjöri en við sjáum líka að fólk velur hangi­kjöt, ost, mysing, brauð­salat og sultu ofan á laufa­brauðið. Þá vitum við til þess að fólk sé að setja sykrað kaffi á laufa­brauðið, maís, saltaða rúllu­pylsu, í­dýfur og osta­sósu, svo dæmi séu tekin. Það eru ekki neinar fastar reglur hvernig á að snæða laufa­brauðið og við teljum að það sé mikil­vægast að láta í­myndunar­aflið ráða för og njóta þess á sem fjöl­breyttasta máta. Sumir snæða líka laufa­brauð á Þorranum, sem er bara hið besta mál.“

90% þjóðarinnar borðar laufa­brauð


Gísli nefnir að 90% þjóðarinnar borði laufa­brauð, að því er fram kemur í könnun sem Gallup fram­kvæmdi fyrir Gæða­bakstur 2021. Stærsti aldurs­hópurinn sem borðar laufa­brauð er 18-24 ára og 35-44 ára, eða 91%. „Það er ekkert lát á vin­sældum laufa­brauðsins enda sé mikil ný­sköpun í fram­leiðslunni. Nú er hægt að fá vegan laufa­brauð, með kúmeni og svo laufa­brauð með ís­lensku blóð­gergs­salti, svo dæmi séu tekin.“

Þá segir hann að fé­lags­legi þátturinn sé afar mikil­vægur í laufa­brauðs­gerðinni. „Mörg dæmi eru um að stór­fjöl­skyldur eða vina­hópar komi saman á að­ventunni til að skera út og steikja laufa­brauð. Við út­skurðinn sé æski­legt að hafa gott laufa­brauð­s­járn til verksins þó hver út­skurðar­maður geti að sjálf­sögðu skapað sína eigin list. „Aðrir kjósa að fá laufa­brauðið steikt og til­búið til neyslu.“

Gísli Þor­steins­son, sölu- og markaðs­stjóri Gæða­baksturs.
Mynd/Aðsend