„Við sem erum frá Hvolsvelli vitum að það er ekkert betra en SS hamborgarhryggurinn soðinn upp úr vatni og kóki,“ segir Hjördís Guðný Guðmundsdóttir.

Pabbi hennar vann hjá SS í mörg ár og er kjötiðnaðarmeistari og kom Hjördísi upp á lagið. „Þetta er trixið sem hann er búin að innprenta í okkur. Þetta er heilagur sannleikur,“ segir hún létt.

Fáir eru betur læsir á íslenskt samfélag en Karen Kjartansdóttir, almannatengill hjá Langbrók. Karen spurði á Fésbókarsíðu sinni „Hvernig á ég að vita hvaða jólamat ég á að kaupa án úttektar matgæðinga DV?! Eru fjölmiðlar alveg að bregðast skyldu sinni, eða missti ég af þessu?“

Fjölmiðlar hafa ekki verið með bragðprófanir fyrir þessi jól, ekki á kjöti, jólabjór eða sörum. En það mynduðust líflegar umræður á síðu Karenar um jólamatinn.

Hjördís segir að þetta trix þekkist vel á Hvolsvelli. „Þetta setur punktinn yfir i-ið. Vatnið er ekkert mjög girnilegt en sósan verður dásamleg. Soðið verður svo gott. Ég kaupi yfirleitt bara eina kók fyrir árið og hún er notuð í þetta.

Þetta þarf auðvitað að berast sem víðast. Ég hélt að þetta væri eitthvað sem alþjóð vissi.“