Fyrir skömmu brást BBC við nýlegri hitabylgju í Bretlandi með því að birta fróðlega umfjöllun þar sem þessari spurningu er svarað.

Flest þekkjum við SPF-tölurnar sem eru á sólarvörn, en það stendur fyrir Sun Protection Factor. Því hærri tala, því meiri vörn gegn geisluninni. Margar gerðir af sólarvörn eru líka með ákveðið margar stjörnur af fimm mögulegum og það getur verið gott að skilja hvernig þær virka.

SPF segir til um vörnina gegn UVB geislun og stjörnurnar segja til um hve mikil vörn fæst gegn UVA geislun í hlutfalli við UVB-vörnina.

Ólíkar gerðir geislunar

UVA og UVB eru ólíkar bylgjulengdir sólargeislunar sem koma inn í andrúmsloftið. UVA er tengd öldrun húðar, litarefni í húðinni og húðkrabbameini, sérstaklega flöguþekjukrabbameini, sem er næstalgengasta tegundin. UVB veldur sólbruna og er tengt ákveðnum tegundum af húðkrabbameini; grunnfrumukrabbameini, sem er algengasta tegundin, og illkynja sortuæxlum.

En sólarvörn kemur ekki algjörlega í veg fyrir skaða á húðinni þannig að til að fá sem mesta vörn er mælt með því að hylja húðina og leita í skugga þegar sólin er sterkust.

Hvernig virka tölurnar?

SPF talan segir til um hve mikil UVB geislun kemst að húðinni, ekki beint hve mikil geislun er stöðvuð. Sólarvörn með SPF 15 hleypir einum fimmtánda af geislum sólarinnar að húðinni, eða um 7%. Hún síar því um 93% af UVB geislun. SPF 30 síar hins vegar um 97% prósent.

Það þýðir að ef við segjum að þú gætir verið í sólinni í 10 mínútur án sólarvarnar án þess að brenna myndi SPF 15 gefa þér um það bil 15 sinnum meiri vörn, eða um tvo og hálfan tíma í sólinni án þess að brenna.

Fjöldi stjarnanna segir svo til um prósentuna af UVA geislun sem er hindruð sem hlutfall af því hve mikil UVB geislun er hindruð. Fimm stjörnur er hámarkið. Þannig getur sólarvörn með lágt SPF verið með mörgum stjörnum, því hlutfallið af UVB vörninni er hátt, ekki af því að vörnin er svo svaka mikil. Þannig að það er best að finna vörn með bæði hátt SPF og margar stjörnur.

Mikilvægt að bera reglulega á sig

Vörnin sem tölurnar segja til um gildir um kjöraðstæður, en flestir bera sólarvörn ekki fullkomlega á sig og hún getur nuddast af með svita eða í vatni. Sérfræðingar telja að flestir beri líka bara á sig um helminginn af ráðlögðu magni.

Samtök breskra húðlækna segja að sólarvörn með SPF 30, ásamt verndandi klæðnaði og skugga, veiti næga vörn en að það þurfi að bera hana aftur á að minnsta kosti á tveggja tíma fresti, sama hve talan er há.

Samkvæmt Evrópureglum má í mesta lagi markaðssetja sólarvörn með SPF 50+, ekki með 80 eða 100, eins og finnst í sumum löndum. Það er talið misvísandi um vörnina sem er veitt. SPF 50 veitir um 98% vörn og 100 veitir minna en 100% vörn, slíka vörn er ekki hægt að fá.

Engin sólarvörn virðist geta virkað allan daginn

Sumar sólarvarnir eru markaðssettar á þeim forsendum að það dugi að bera þær á einu sinni á dag og þær virki í átta tíma ef þær eru notaðar rétt. En sumir húðlæknar mæla samt með því að slík vörn sé notuð á tveggja tíma fresti, eins og önnur sólarvörn, því það sé svo mikil hætta á að húðin þekist ekki alveg eða vörnin nuddist af.

Rannsókn frá 2016 komst líka að þeirri niðurstöðu að eftir sex til átta tíma væri vörnin af slíkri sólarvörn búin að minnka um 74%. ■