Í dag er Bóndadagurinn og í tilefni að því spurðum við nokkar þjóðþekktar konur sem þekktar eru fyrir að vera miklir gleðigjafar og hafa einstaklega gaman að því að koma sínum á óvart hvort þær haldi upp á bóndadaginn og færi sínum bónda gjöf í tilefni dagsins.

Sigþrúður Ármann
Mynd/Aðsend

Fær harðfisk að morgni

Sigþrúður Ármann, framkvæmdastjóri Exedra og varaþingmaður, er mikill gleðigjafi og þekkt fyrir að kunna að hafa gaman og standa fyrir skemmtilegum viðburðum þar sem gleðin er við völd.

„Það má segja að bóndadagurinn sé hátíðisdagur hjá okkur hjónum. Yfirleitt er ég búin að útbúa gjöf sem ég afhendi honum strax um morguninn. Hann og vinir hans hafa í allmörg ár haldið daginn hátíðlegan og hefst dagskrá þeirra með morgunmat og stendur yfir allan daginn. Hafa þeir meðal annars þann háttinn á að hlýða á predikun og snæða hádegisverð heima hjá tengdaforeldrum einhvers úr hópnum. Hafa foreldrar mínir til að mynda tekið á móti þeim við mikinn fögnuð. Einnig er þorrablót Stjörnunnar sem er einn af hápunktum ársins í Garðabæ. Þangað höfum við farið í mörg ár með frábærum vinum. Ég og vinkonur mínar hittumst yfirleitt um miðjan dag og tökum okkur til saman áður en haldið er í teiti í heimahúsi fyrir sjálft þorrablótið. Bóndadagurinn er því mikill gleðidagur.

Með harðfisknum verð ég búin að velja vel bruggaðan bjór.

Ég mun gleðja bóndann árla morguns með gjöf sem inniheldur að sjálfsögðu harðfisk enda fátt meira við hæfi á sjálfum þorranum. Með harðfisknum verð ég búin að velja vel bruggaðan bjór. Einnig finnst mér gaman að gefa honum flott bindi eða góðan rakspíra. Í þetta skiptið verður bóndadagurinn svolítið öðruvísi þar sem að bóndinn og vinir hans ætla að fara til Svíþjóðar og styðja Ísland í milliriðlinum. Ég verð því að afhenda honum gjöfina mjög snemma þennan dag og treysti á að hann drekki bjórinn og gæði sér á harðfisknum á leiðinni út á völl, enda um fínasta morgunmat að ræða á sjálfan bóndadaginn.“

Sigríður Hrund Pétursdóttir.

Gull af manni

Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og formaður FKA, hefur mikla ástríðu fyrir dögum sem þessum og leggur mikinn metnað í að dekra við sinn bónda og alla bændur í kringum sig.

„Ég held upp á bóndadaginn með pompi og prakt, bæði fyrir eiginmann minn til 25 ára, drengina mína þrjá heima við og strákana sem ég er svo heppin að vinna með í Vinnupöllum.“

„Eðaldrengirnir í vinnunni og eiginmaðurinn munu fá boli sem á stendur „Gull af manni“, það verða sverar hnallþórur á borðum frá hádegi og í lok dags sendi ég þá saman í axarkast hjá Berserkjum. Síðan förum við öll saman út að borða eitthvað sem þeim finnst gott, t.d. hamborgara með sveittri sósu.“

„Við hjónin ætluðum að skella okkur á gönguskíðanámskeið yfir komandi helgi en veikindi hamla þeirri ferð svo ég mun elska hann á yfirsnúningi heima við í staðinn. Okkur líður afar vel saman og sunnudagshádegi eru sérstakar hjónastundir þar sem við ræktum samveru með t.d. mat, kaffi, LP plötum og blaðalestri.“

„Eitt sem ég geri aldrei á bóndadeginum – ég kaupi ekki súrmat eða þorramat nema óskað sé eftir því – ég fer frekar í hina áttina og dekra drengina sem ég er svo heppin að fá að ferðast með í lífinu eins vel og umfangsmikið og mér fremst er kostur.“

Hildur Gunnlaugsdóttir og Hreiðar Leví Guðmundsson.

Bóndadagur á HM

Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og lífskúnstner, er sniðugri en flestir og fær hinar frumlegustu hugmyndir um alls konar. Hún er gift fyrrum landsliðsmanni í handbolta Hreiðari Leví Guðmundssyni og litast bóndadagurinn að sjálfsögðu af HM í handbolta eins og hjá fleirum.

„Ég er hræðileg en ég geri miklar kröfur til mannsins míns á konudaginn en hef ekki mikið gert fyrir hann á bóndadaginn og ætla að ráða bót á því í ár. Við verðum í Svíþjóð þennan dag en byrjum daginn á því að fara í góðan morgunmat með mímósu og síðan í heilsulindina á hótelinu þar sem við eyðum nokkrum tímum í hinum ýmsu gufum og pottum. Svo gírum við okkur upp með andlitsmálningu og tilheyrandi galla og förum á Ísland/Svíþjóð leikinn. Ég er búin að lofa manninum mínum að gíra mig upp í handboltabulluham með honum en ég er ekki þekkt fyrir mikinn áhuga á íþróttaáhorfi. Að leik loknum ætlum við að borða ólystugan djúpsteiktan mat.“

Elísabet Metta Svan Ásgeirsdóttir.

Út að borða

Elísabet Metta Svan Ásgeirsdóttir er markaðsstjóri, stofnandi og annar eiganda MAIKAI, sem hefur notið mikillar hylli landsmanna. Hún hefur mikla ánægju af óvæntum uppákomum.

„Ég held alltaf upp á bóndadaginn, hvort sem það er lítið eða smátt. Stundum eru það litlar gjafir eða t.d. út að borða. Ég held víst við séum með plön í kvöld þetta árið. En gjöf fær hann þegar hann vaknar, litil gjöf en síðan tek ég hann mögulega í hádegismat.“

Lína Birgitta Sigurðardóttir og Gummi kíró.

Pakki og blóm

Lína Birgitta Sigurðardóttir, áhrifavaldur og eiganda vörumerkisins Define The Line Sport, kann svo sannarlega að njóta lífsins með sínum og á bóndadeginum er það engin undantekning.

„Ég held upp á bóndadaginn með mínum bónda en mér finnst mikilvægt að halda í þessa hefð, mér finnst hún skemmtileg og hún gefur manni tækifæri til að gera eitthvað saman.“

„Oftast er þetta mjög svipað en hingað til höfum við farið á hótel eða út að borða og yfir daginn fær hann blóm og pakka. Í ár er það samt sem áður ekki hótel, heldur út að borða á einn uppáhaldsstaðinn okkar sem er PUNK og svo fær hann að sjálfsögðu pakka og blóm.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Fær heiðarlegt lambakjöt

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er þingmaður og veislustýra en hún er einnig þekkt fyrir að stýra Þorrablótum með miklu ágætum þar sem hlátursköllin hafa heyrst hátt.

„Ég er á því að það sé um að gera að nýta öll tilefni til að gera sér dagamun yfir vetrarmánuðina. Bóndadagurinn er fínasta tilefni til þess. Ég er í vinnuferð í Skotlandi ogkem ekki heim fyrr en seint að kvöldi bóndadags. Annar í bóndadegi verður því haldinn hátíðlegur á laugardag. Verst finnst mér að missa af því að horfa saman á leikinn.“

„Ég hafði hugsað mér að elda góðan kvöldmat fyrir hann en við höfum reyndar gaman af því að elda saman og gefum okkur yfirleitt góðan tíma í það um helgar. En í tilefni dagsins mun ég standa vaktina sjálf og bjóða upp á lambakjöt. Heiðarlegt og íslenskt og vekur alltaf lukku. Annars hafði ég ætlað mér að draga hann með mér í sund og gufu um daginn. Við erum bæði unnendur sundlauganna hér heima og förum töluvert saman í sund.“