Á meðan fyrsta lag strákanna, LSMLÍ (Lífið sem mig langar í) fjallar um fullkomið fjölskyldulíf þá fjallar Honný um fullkomnu ástina og í rauninni fjalla bæði lögin um falskar vonir. „Honný er um ógeðslega fullkomna ástarsögu. Hún er geðveikt klisjukennd,“ segir Fannar sem samdi lagið og textann. „Textinn er um einstakling sem er að tala um eitthvað sem hann vill að verði. Hann er að lofa einhverju allan tímann í laginu.“ Meðal annars lofar hann að brosa allan daginn, kaupa blómvönd og skópar á konudaginn og að hneppa sparidressið á vinkonuna eða vininn sem lagið fjallar um. „Hann er tilbúinn að gera þetta fyrir manneskjuna sem hann elskar, þótt það sé ekkert endilega allt fast í hendi. Svona er að vera ógeðslega ástfanginn.“

Krúttlegt og einlægt

Fannar segir að lagið hafi komið til þegar hann var að fikta á hljómborð í herberginu sínu. „Ég var að gera einhverjar tilraunir með að læra á píanó.“ Fannar segist þó vera lélegur á flest hljóðfæri. „Ég get samt samið á þau. Ég fékk einhverja laglínu í hausinn sem ég lagði niður. Ég fann strax taktinn í textanum og leyfði honum að verða að algjörri klisju. Mig langaði að gera lag sem væri bara ótrúlega krúttlegt og einlægt.“

Lagið fór flóknar leiðir í framleiðslunni. Til að byrja með hleyptu Fannar og Jökull alls konar áhrifum á fyrstu útgáfuna sem varð til þess að lagið varð að hálfgerðri klessu að sögn Fannars. „Þá vorum við að reyna að byggja ofan á fyrstu hljómborðsupptökuna frá mér. Síðan hentum við henni í ruslið og fengum Magnús Jóhann Ragnarsson til að gera það sem hann gerir best, að spila á píanó yfir viðlagið af öllu hjarta. Hann rokkaði lagið fyrir okkur.“ Hipsumhaps stefnir á að gefa út plötu í haust. Þeir félagar hafa unnið að henni síðastliðið ár en strákarnir hafa verið góðir vinir frá árinu 2013 þegar Fannar var flokkstjóri Jökuls í unglingavinnunni.

Fannar segist vera með víðan tónlistarsmekk þar sem flestir tónlistarflokkar komast fyrir, nema kannski dubstep. Þegar hann kynntist Jökli fyrst leist honum ekkert á tónlistarsmekk hans sem einkenndist einmitt mikið af dubstep-lögum. „Það er fyndið að sjá smekkinn hjá þessum gaur þroskast. Eftir að dubstep-tímabilinu lauk fór Jökull að sökkva sér í trappsenuna og vann mikið meðal annars með Flóna á milli þess að koma víða við í tónlistarsmíð og tónleikahaldi í félagslífinu í Verzló. Jökull bjó til takta fyrir fyrstu plötuna hans Flóna og kom mikið að vinnunni við síðustu plötu hans.

Fiktari af guðsnáð

Það er að verða æ algengara að einstaklingar sem hafa ástríðu fyrir lagasmíð geti klárað fullunnin lög heima í tölvu án þess að þurfa á menntun eða miklu fjármagni að halda. Fannar kallar Jökul fiktara af guðsnáð. „Þegar hann kemst í eitthvað sem hann hefur áhuga á þá hellir hann sér út í það. Ég vissi áður en við Jökull fórum að gera eitthvað saman að hann væri fær í þessu apparati Ableton. Hann hafði aldrei reynt áður að taka upp indírokk, eitthvað sem mig langaði að gera.“

Mörg lögin og textarnir sem verða á plötunni eru samin af Fannari en hafa fengið að sitja í geymslunni síðustu ár. „Ég á mikið af lögum og textum sem ég er búinn að vera að skrifa síðustu ár en aldrei gert neitt við.“ Sjálfur syngur Fannar flest lögin en báðir radda. Fannar segir að þeir leyfi rásafjöldanum að leika lausum hala en bæði hann og Jökull bregða sér í alls kyns líki í röddunum.

Innblástur héðan og þaðan

Fannar fullyrðir að lögin á plötunni verði öll einstök. „Hipsumhaps kemur af danska orðatiltækinu „hip som hap“ sem er notað þegar hlutir ráðast af tilviljunum. Það er það sem við erum að gera. Við erum undir miklum áhrifum frá stílum og stefnum héðan og þaðan,“ segir hann. Strákarnir neita að einskorða sig við ákveðna tónlistarstefnu sem breytist lag frá lagi. „Við eltumst við einhverja tilfinningu í hverju lagi og leyfum textanum að draga lagið áfram.“

Hipsumhaps sækir innblástur úr áhugaverðum áttum eins og til dæmis frá hljómsveitinni Miike Snow og indípopp tríóinu The XX. Miike Snow samanstendur af tveimur sprenglærðum popptaktasmiðum frá Svíþjóð og lagasmiði frá Ameríku. „Ég held að þetta byrji allt hjá okkur báðum í þessu klassíska, Bítlunum, Rolling Stones, Lou Reed og David Bowie. Við erum með svo fáránlega víðan tónlistarsmekk.

Áhugaverð íslensk textasmíð er það sem veitir okkur mikinn innblástur.“ Sem dæmi nefnir Fannar hljómsveitina Sálina hans Jóns míns, Mugison og Prins Póló. „Ástarlög og eitthvað sem nær á djúpar tilfinningar finnst mér rosalega fallegt.“ Strákarnir þora að sýna einlægni í textunum sínum og leggja mikið upp úr því að nota íslenska tungumálið á fallegan hátt.

„Ég fór að hugsa um þetta um daginn. Eitt af því sem okkur langar að gera er að semja tónlist sem maður hlustar á einn með sjálfum sér. Ég hlusta allt öðruvísi á tónlist þegar ég er einn en þegar ég er í hóp. Lagið Honný er svoleiðis lag, maður hlustar á það í einrúmi og hugsar um ástina. Það verða fleiri þannig lög á plötunni, lög sem eru virkilega berskjölduð.“

Fannar og Jökull stefna á að halda íburðarmikla tónleika á sem flestum stöðum. „Við ætlum að fylgja þessari sögu eftir sem við erum að reyna að segja með tónlistinni,“ segir Fannar. Hann vonar að Hipsumhaps muni hafa áhrif á tónlistarsenuna á Íslandi. Miðað við athyglina sem hljómsveitin hefur fengið á hveitibrauðsdögum sínum þá virðist hún eiga möguleika á því. „Maður veit aldrei hvaða áhrif maður getur haft á hinum endanum.“