Hljómsveitin Urmull & Kraðak er samstarfsverkefni Ragnars Jóns Ragnarssonar, sem alltaf er kallaður Humi, og Helga Egilssonar. Vinirnir kynntust sex ára gamlir en byrjuðu að spila og semja tónlist saman um þrettán ára aldurinn.

„Fyrsta platan okkar, Sápa, kom út í mars árið eftir. Síðan þá höfum við gefið út eitt lag á mánuði,“ segir Humi. „Platan okkar er í trip-hop stíl en svo höfum við leyft okkur að fara um víðan völl eftir það. Við erum nýbúnir að gefa út lagið Er á meðan er þar sem við fáum tvo flinka tónlistarmenn með okkur sem spila á gítar og saxófón. Rúsínan í pylsuendanum er tryllt saxófónsóló í lok lagsins.“

Þeir sinna hljómsveitinni á kvöldin sem Humi segir vera ótrúlega skemmtilegt og um leið gott fyrir sálina. „Það er svo skemmtilegt að semja og gefa út tónlist. Við höfum líka verið mjög lánsamir með hvað við höfum fengið marga hæfileikaríka tónlistarmenn til samstarfs.

Urmull & Kraðak eru í eins árs fríi um þessar mundir meðan Helgi er búsettur tímabundið á Spáni. „Á meðan ætla ég að gefa út tónlist undir eigin nafni. Ég hef nýtt þau tækifæri sem ég hef fengið til þess að fjalla um geðheilbrigði og fordóma, en ég er sjálfur greindur með geðhvarfasýki. Ég hugsa að ég reyni að nýta þennan vettvang til þess. Ég er nú þegar búinn að gefa út eitt skrýtið og einlægt lag er heitir Humi plús Panda, en það er ástaróður manns með geðhvarfasýki til konu sem er með ADHD. Líklega verður framhaldið eitthvað í þá veru en Urmull & Kraðak munu mæta keikir til leiks að ári.“

Humi leyfði okkur að kíkja inn í fataskápinn og svaraði nokkrum spurningum tengdum tísku.

Svartir og hvítir röndóttir bolir eru nánast eins og einkennisklæðnaður fjölskyldunnar. Húfan er prjónuð af Huma. Lúkkið er tilvísun í myndina The Life Aquatic with Steve Zissou.

Hvernig hefur tískuáhugi þinn þróast undanfarin ár?

Tískuáhugi minn hefur sveiflast frá því að vera lítill og yfir í að vera einhver en þó sjaldan verið mjög mikill. Mér er samt mjög oft annt um það hvernig ég klæði mig, sérstaklega þegar ég spila á tónleikum eða þarf að koma fram. Svo er ég yfirleitt alltaf með naglalakk, það er svo næs að vera með fínt naglalakk þegar maður spilar á píanó. Þar sem ég er grunnskólakennari þá er ekki alltaf lykilatriði að ganga í nýjustu tísku heldur frekar að ná athygli nemenda. Þess vegna reyni ég að ganga í einhverju litríku og vera alltaf í ósamstæðum sokkum.

Hvernig fylgist þú helst með tískunni?

Ég skal viðurkenna að ég fylgist lítið með tísku en einu sinni las ég alltaf GQ spjaldanna á milli. Núna er ég samt bara eins og bolurinn og fylgist með í gegnum samfélagsmiðla.

Hvar kaupir þú helst föt?

Flestar flíkurnar mínar eru keyptar í H&M og sumar eru endurnýttar frá öðrum. Síðasta flík sem mér áskotnaðist er lopapeysa sem var í eigu tengdapabba sem var mikill vinur minn.

Hvaða litir eru í mestu uppáhaldi?

Ég er litblindur þannig að ég er mjög oft í einhverri furðulegri litasamsetningu. Það kemur stöku sinnum fyrir að ég geng algerlega fram af heimilisfólkinu og þá reyni ég að taka leiðsögn og laga litasamsetninguna. Uppáhaldsliturinn minn er bleikur enda geggjaður litur.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Mokkajakki og inniskór voru staðalbúnaður þegar ég var í menntaskóla. Það er mögulega einhvers konar tískuslys.

Hvaða þekkti einstaklingur er svalur þegar kemur að tísku?

Ég er nýbúinn að uppgötva frekar flottan Tik-Tokara sem er fáránlega svalur og heitir David Ross Lawn. Hann ýtir í fullt af kynjuðum staðalímyndum og geislar af sjálfsöryggi. Það er nefnilega ekkert til sem heitir strákaföt eða stelpuföt og það eiga allir að fá að vera sáttir eins og þeir eru.

Hvaða flíkur hefur þú átt lengst og notar ennþá?

Ég geng yfirleitt algerlega út úr gallabuxum og er stundum búinn að gera við þær oft þegar ég hendi þeim. Það er bæði umhverfisvænt og hagkvæmt að gera við saumsprettur eða göt í vösum. Skó reyni ég líka að láta sóla svo þeir endist lengi. Ég á fína Lloydsskó sem ég lét sóla með bleikum sóla og bleikum reimum, þeir eru geggjaðir.

Áttu uppáhaldsverslanir?

H&M er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er hávaxinn með mjög langar hendur og í H&M finn ég alltaf skyrtur og peysur sem passa á mig og kosta ekki augun úr. Mjög praktískt og umhverfisvænt. Annars staðar er hætt við því að flíkur passi yfir mig miðjan en ermarnar nái mér að olnbogum.

Bleika skyrtan er í miklu uppáhaldi. Blái jakkinn er frá Jack & Jones. Úrið erfði Humi frá tengdaföður sínum og er Omega Flightmaster frá sjötta áratugnum.

Áttu eina uppáhalds flík?

Árið 2007 keypti ég mér bíl á 15.000 kr. og einnig hvíta Hugo Boss kengúruskó á 17.000 kr. Sagðist svo alltaf eiga skó sem voru dýrari en bíllinn minn. Þeir eru geggjaðir og ég nota þá enn.

Bestu og verstu fatakaupin?

Bestu fatakaupin eru klárlega loðstígvél sem ég keypti á skíðaferðalagi á Ítalíu. Ég spilaði marga tónleika í þeim, löngu áður en Birgitta Haukdal varð kúl. Verstu fatakaupin voru klárlega þegar ég keypti mér frakka til þess að ganga í augun á stelpu. Svo þegar á hólminn var komið hafði ég gleymt að taka verðmiðann af frakkanum og stelpan benti mér á það. Á þeim tíma var það sennilega það vandræðalegasta sem hafði komið fyrir mig. Frakkinn er reyndar flottur og ég á hann enn.

Notar þú fylgihluti?

Ég er alltaf með hálsmen sem ég er búinn að láta grafa í „Bipolar and Colorblind“ og geng yfirleitt með fallegt naglalakk. Ég er líka alltaf með úr og á ágætt safn af úrum sem ég skiptist á að nota.

Eyðir þú miklum peningum í föt?

Ég eyði mjög litlum pening í föt og reyni að nýta allt eins og vel og ég get og jafnvel stundum of lengi. Ég kaupi frekar í skorpum og kaupi þá nokkrar skyrtur og buxur.

Fylgir þú einhverjum tískumerkjum eftir á samfélagsmiðlum?

Nei því miður.

Er einhver flík sem þú ætlar að kaupa á næstunni?

Nei. En eftir að hafa fengið að prýða tískudálk Fréttablaðsins þá leyfi ég mér kannski að uppfæra fataskápinn eitthvað.

Peysan er prjónuð af móður Huma og þykir honum óskaplega vænt um hana. Litirnir eru líka litblinduvænir, sterkir kontrastar og skærir litir. Skyrtan er slim-fit og létt úr H&M.