Joachim B. Schmidt er svissnesk-íslenskur rithöfundur sem hefur verið búsettur hér á landi síðan 2007. Joachim hefur getið sér gott orð fyrir bækur sínar í hinum þýskumælandi heimi en fjórða skáldsaga hans, Kalmann, kom á dögunum út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar. Um er að ræða óvenjulega spennusögu sem gerist á Raufarhöfn og fjallar um hinn sjálfskipaða lögreglustjóra Kalmann sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir.

„Þetta er eiginlega portrett um Kalmann sem er mjög sérstakur gaur sem býr á Raufarhöfn og er með væga þroskahömlun. Hann labbar um þorpið með kúrekahatt, „sheriff“-stjörnu, og óhlaðna byssu. En svo gerist eitthvað þarna á Raufarhöfn, það hverfur þarna ríkasti maðurinn, meira og minna sporlaust, það er bara smá blóð eftir í snjónum. Kalmann er sá sem finnur þennan blóðpoll og hefur séð eitthvað tengt málinu og þannig byrjar ballið,“ segir Joachim.

Kalmann var upprunalega gefin út í Sviss hjá Diogenes Verlag árið 2020 og hlaut góðar viðtökur í hinum þýskumælandi bókmenntaheimi. Fyrir bókina fékk Joachim meðal annars Crime Cologne glæpasagnaverðlaunin 2021 sem kom honum nokkuð á óvart því Kalmann er ekki beint hefðbundin glæpasaga.

„Ég ætlaði að skrifa glæpasögu en svo mistókst þetta aðeins. Af því Kalmann var einhvern veginn svo sérstakur og mikilvægur og mér fannst svo gaman að fylgjast með honum og fara í hans daglega líf þannig þetta varð einhvers konar portrett á sama tíma. Ef sumir vilja meina að þetta sé glæpasaga þá segi ég ekki nei við því.“

Íhugaði að skipta um nafn

Joachim segir Svisslendinga og aðrar þýskumælandi þjóðir vera mjög hrifnar af Íslandi og íslenskum höfundum. Aðspurður um hvort það veki athygli að svissneskur rithöfundur skuli skrifa um Ísland segir hann að það hafi gert samband hans við lesendur nokkuð sérstakt.

„Ég flutti alveg hingað 2007, ég hef fengið íslenskan ríkisborgararétt, ég er giftur íslenskri konu, ég er alveg kominn inn í þetta samfélag. En nafnið mitt, Joachim Schmidt, er bara mjög þýskt nafn og það stendur á bókinni. Kalmann er fjórða bókin mín og það hefur verið smá galli að skrifa íslenskar skáldsögur ekki sem Íslendingur eða ekki með nafn sem endar á -son. Það fór eiginlega svo langt að ég pældi í því hvort ég ætti kannski að skipta um nafn og vera kallaður Joachim Hermannsson eða eitthvað svona. En núna held ég að það sé komið í réttan farveg, fólki finnst þetta á sama tíma spennandi að þarna sé Svisslendingur sem flutti hingað og er núna með tvöfaldan ríkisborgararétt og er því kannski með aðeins öðruvísi vinkil á samfélagið heldur en innfæddir.“

Að sögn Joachims hefur landslagið breyst mikið undanfarið fyrir rithöfunda af erlendum uppruna sem starfa á Íslandi en fyrir örfáum árum þótti það sæta tíðindum að slíkar bækur kæmu út hér á landi.

„Ég þarf eiginlega að þakka mjög mikið Sjón. Hann hefur barist fyrir fólki eins og mér frekar lengi, rithöfundum úr öðrum löndum sem eru búsettir hér en hafa ekkert svið og er ekki tekið eftir. Hann til dæmis sá það fyrir löngu að Íslendingar þurfa að vera opnari fyrir fólki sem einmitt endar ekki á -son eða -dóttir. Það er smá breyting í gangi að ég held og það er bara mjög gott.“

Endurskrifar Vilhjálm Tell

Bókin gerist á Raufarhöfn, stað sem er mjög afskekktur og er jafnvel framandi fyrir Íslendinga.

Af hverju varð Raufarhöfn fyrir valinu sem sögusvið?

„Mig langaði að finna sögusvið sem er, eins og þú segir, afskekkt og langt í burtu. Fólk er að flytja burt, það er svona smá drungalegt umhverfi, en ég þekkti Raufarhöfn mjög lítið. Ég kom þangað sem ferðamaður en ég keyrði bara meira og minna í gegn á þessum tíma því þar var svo lítið að sjá. En svo valdi ég þennan stað og fór í rannsóknarferð þangað til þess að skoða þetta betur og nákvæmar, og þá upplifði ég eitthvað allt annað. Jú, það eru mörg tóm hús á Raufarhöfn og risastórt hafnarsvæði sem er ekki vel notað.

En fólk þarna var bara svo rosalega skemmtilegt og bauð mig strax velkominn og fannst hugmyndin frábær og var til í allt, spjall og kaffi. Það kom mér pínu á óvart en það var mjög ánægjulegt og það fór síðan auðvitað líka inn í söguna sjálfa, þess vegna varð þetta kannski ekki þessi glæpasaga eins og ég hafði hugsað mér heldur var þetta bara allt í einu frekar skemmtileg bók með alls konar karakterum og ég varð smá ástfanginn af Raufarhöfn.“

Nýjasta skáldsaga Joachims, Tell, kemur út í Sviss í febrúar en um er að ræða endursögn á þekktasta svissneska ævintýrinu, sögunni um Vilhjálm Tell. Joachim segir hugmyndina að þeirri bók hafa sprottið upp úr Íslendingasögum og fjórleik Einars Kárasonar um Sturlungaöld.

„Þetta er svona sagan sem Svisslendingar eiga eða eru búnir að eigna sér, hún er til annars staðar líka en ég held að svissneska útgáfan sé best. Mig langaði að upplifa hana aftur af því mér fannst eins og við hefðum týnt henni aðeins. Þar spilar svona stoltið inn sem Íslendingar hafa með Íslendingasögurnar og að koma því inn hjá Svisslendingum að við eigum líka eina svona flotta sögu,“ segir Joachim að lokum.