Lucy Maino, 25 ára fegurðar­drottning frá Papúa Nýju Gíneu, á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Lucy var valin fegursta kona landsins árið 2019 og er einnig lands­liðs­kona í fót­bolta.

Ekki alls fyrir löngu birti Lucy mynd­band af sér á TikTok þar sem hún sást „twerka“, en um er að ræða götu­dans sem nýtur tölu­verðra vin­sælda.

Lucy átti ekki beint von á þeirri at­burða­rás sem fór af stað eftir að hún birti mynd­bandið, en hún varð fyrir alls­konar á­reiti á netinu.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að að­stand­endur fegurðar­sam­keppninnar hafi hafið rann­sókn á málinu í mars­mánuði og hvort Lucy hafi hugsan­lega brotið gegn reglum keppninnar. Niður­staða nefndarinnar lá fyrir í vikunni og var hún svipt nafn­bótinni sem hún hlaut árið 2019. Engin keppni var haldin í fyrra vegna COVID-19 faraldursins og því var hún enn handhafi titilsins.

Eins og að framan greinir nýtur „twerk“-dansinn tölu­verðra vin­sælda en í honum eru mjaðma­hreyfingar í aðal­hlut­verki. Á TikTok má að líkindum finna þúsundir slíkra mynd­banda. Að mati nefndar sem skoðaði málið þótti fram­ferði Lucy í mynd­bandinu ekki hæfa ein­stak­lingi sem á að vera fyrir­mynd fyrir aðra.

Í frétt Guar­dian kemur fram að mynd­bandinu hafi verið hlaðið niður af hennar per­sónu­lega TikTok-að­gangi og það svo birt á YouTu­be þar sem þúsundir horfðu á það og gagn­rýndu Lucy.

Guar­dian hefur eftir fyrr­verandi Ung­frú Papúa Nýju Gíneu, sem vildi ekki láta nafns síns getið, að málið sýni svart á hvítu að kven­fyrir­litning eigi sér djúpar rætur í landinu. Bendir hún á að ef karl­maður hefði birt sams­konar mynd­band hefði verið hlegið og honum hrósað.

Lucy stundaði nám við Uni­versity of Hawa­ii og lék einnig knatt­spyrnu fyrir hönd skólans. Þá var hún vara­fyrir­liði lands­liðs Papúa Nýju Gíneu en með hana innan­borðs vann liðið til gull­verð­launa á Kyrra­hafs­leikunum 2019.