Fyrsta verk sviðlistahópsins CGFC á fjölum atvinnuleikhúsa, Kartöflur, hefur hlotið tilnefningu til Grímuverðlaunanna 2020 fyrir leikrit ársins. Verkið er einstakt að því leyti að það var einungis sýnt þrisvar með takmörkuðu sætaframboði og voru því fáir gestir sem sáu það. Þá er nokkuð sjaldgæft að slíkt verk hljóti tilnefningu í flokknum Leikrit ársins. Hópurinn segist mjög hissa yfir þessu öllu saman.

Hópinn CGFC skipa Arnar Geir Gústafsson, borgarskipulagsfræðingur, Ýr Jóhannsdóttir, textílhönnuður, Birnir Jón Sigurðsson og Hallveig Kristín Eiríksdóttir, sviðshöfundar. Við gerð sýningarinnar fengu þau til liðs við sig raftónskáldið Halldór Eldjárn. Fréttablaðið ræddi við Hallveigu Kristínu sem segir kartöfluna vera lægsta samnefnara Íslands.

„Við ætluðum að gera verk um tímann. Vorum komin af stað með það en síðan var það yfirþyrmandi og of stórt, þannig að við ákváðum að fara í gagnstæða átt. Við leituðum í smærra samhengi, reyndum að finna hver væri lægsti samnefnari íslendinga, og lentum á kartöflunni. Þá hófst ferðalag þar sem við einblíndum á kartöflubændur, bæði þá sem rækta kartöflur í jörð í sveit sem og snakkbændur innan borgarmarkanna, og kynntumst mikið af frábæru fólki sem var örlátt á tíma sinn og tilbúið að taka þátt í verkinu.“

Verkið Kartöflur var einungis sýnt þrisvar sinnum en áhorfendur fá tækifæri að sjá það aftur í haust á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu.
Mynd: Gunnlöð Jóna

Helga fékk loks viðurkenningu

Sýningin er eins og gefur að skilja heimildaleikrit um kartöflubændur og hvernig íslenskur nútími kallast á við fortíðina í gegnum þetta vinsæla grænmeti. Listafólkið kynnti sér ferli kartöfluvinnslunnar í Þykkvabæ frá Leifi Bjarka Björnssyni, sem og snakkgerð í Iðnmark í Hafnarfirði hjá Sigurjóni Dagbjartssyni.

Síðan ræddi hópurinn við Hildi Helgu Gísladóttur, Kristján Rafn Heiðarsson og Helga Skúla, en þar lærður þau söguna af ömmu Hildar og Helga, henni Helgu Gísladóttur, sem ræktaði upp sitt eigið yrki af kartöflum (Helguna) en fékk aldrei tilskylda viðurkenningu fyrir.

„Hún ræktaði upp nýtt yrki af kartöflum sem hlutu viðurkenningu sem úrvalskartafla, ein af aðeins þremur tegundum á Íslandi.“

„Helga var mikil kjarnakona og frumkvöðull á sínu sviði, með þeim fyrstu til þess að stunda grænmetisræktun í miklum mæli og var sinnar eigin gæfu smiður. Hún náði að brjóta sig úr hlekkjum lausamennskunnar og festa kaup á jörð ásamt Hjörleifi, manninum sínum, en jörðin var illa farin og þau þurftu að byrja nánast frá grunni. Afþýfðu túnin með skóflu og unnu myrkranna á milli við að koma jörðinni í stand á sama tíma og hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum.“

Frumkvöðullinn Helga Gísladóttir ræktaðu upp nýtt yrki af kartöflum en var rangnefnd í sögubókum áratugum saman.

„Hún ræktaði upp nýtt yrki af kartöflum sem hlutu viðurkenningu sem úrvalskartafla, ein af aðeins þremur tegundum á Íslandi. Síðan var hún aftur á móti rangnefnd í sögubókunum áratugum saman, og tókum við á okkur að leiðrétta nafn hennar á hinum ýmsu vettvöngum auk þess að reyna að koma fyrir málverki af henni inni á Landbúnaðarráðuneyti,“ segir Hallveig.

„Það besta við ferlið, fyrir utan að öðlast djúpa þekkingu á stöngulsýki og kartöflukláða, var að fá að kynnast þessu góða fólki sem við hefðum annars aldrei hitt.“

Sviðslitahópurinn gerði Helgu Gísladóttur frá Unnarholtskoti hátt undir höfði fyrir ævistarf sitt og því málaði Hallveig Kristín olíumálverk af Helgu og gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.
Mynd:CGFC

Frábært tækifæri fyrir tilraunamennsku

Hópurinn var búinn að ganga með hugmyndina í maganum í um hálft ár og voru komin á fremsta hlunn að gefa út matreiðslubók þegar þau fengu inn hjá Borgarleikhúsinu. Verkið var unnið í nokkurra vikna samsköpunarferli fyrir Umbúðalaust og verður sett upp aftur á Litla Sviðinu í haust. Hópurinn er því um þessar mundir að stinga niður útsæði fyrir næstu uppskeru.

Hópurinn segir reynslu sína af Umbúðalaust hafi verið í heildina góð þar sem lengi hefur verið skortur á vettvangi fyrir ungt sviðslistafólk og tilraunakenndar hugmyndir á sviði.

„Við kynntum hugmyndina þegar hún var á miklu byrjunarstigi og hlutum síðan fullt listrænt frelsi til að gera það sem okkur hugnaðist og upplifðum traust frá húsinu til þess. Það er mikilvægt að hafa svona vettvang þar sem fólki líður eins og það geti sýnt efnið sitt undir formerkjum verks í vinnslu og fagnað hinu skyndilega og hráa.“

Eins og fram kemur hér að ofan voru einungis þrjár sýningar og Hallveig segist spennt að fá að sýna verkið aftur í september. „Það ættu í raun að vera svona verkefni í gangi alltaf, til að fleiri fái þetta tækifæri.

Hugmyndin var búin að spíra í hálft ár áður en hópurinn fékk vettvang fyrir sýningu hjá Borgarleikhúsinu.
Mynd: Gunnlöð Jóna

Maðurinn sem borðaði bara kartöflur í heilt ár

CGFC stefnir á að aðlaga Kartöflur fyrir útvarp og gefa út sex þátta seríu úr rannsóknarefninu sem fram kom í ferlinu.

„Það er ýmislegt sem fékk ekki að rata í sýninguna vegna þess hvað við höfðum stuttan tíma til að vinna sýninguna, og við erum mjög spennt fyrir að finna því efni farveg. Töluðum til dæmis við mann sem borðaði bara kartöflur í heilt ár og missti 50 kíló, hans saga verður að heyrast,“ segir Hallveig.

„Þar fyrir utan höfum við nýlega sýnt nýtt verk sem var okkar umfangsmesta verk til þessa, en því miður voru einungis örfáir sem fengu að berja verkið augum sökum aðstæðna og stærðar, en heimildarverk um það verk er í vinnslu og er óvíst hvenær það verk lítur dagsins ljós.“