„Mörg þessara verka hafa verið sýnd í öðru samhengi og á öðrum sýningum og önnur hafa ekki verið sýnd áður en hér mætast þau í einni sýningu,“ segir Vigdís. „Ég tók eftir því að fyrir aldamótin 2000 voru nánast engar ljósmyndir í safneigninni eftir kvenkyns ljósmyndara eða kvenkyns listamann, en það hefur markvisst verið unnið að því að fjölga þeim verkum. Í safneigninni eru tæplega tvö hundruð verk sem flokkast sem ljósmyndir og ég valdi rúmlega fjörutíu verk á sýninguna með tilliti til samhengis þeirra og stillti þeim upp út frá þema, þannig að það er hægt að ganga í gegnum sýninguna og upplifa hana þematengt.“

Þróun í tækninni

Sýningin er í tveimur sölum og spannar hálf öld. Vigdís segir þróunina í ljósmyndun á þessum áratugum aðallega felast í tækninni. „Gott dæmi er Hrafnkell Sigurðsson myndlistarmaður sem hefur alltaf notað ljósmyndamiðilinn og þegar horft er á elstu verk hans og þau yngri þá sést vel hvernig þau hafa þróast með tækninni. Það er mjög áhugavert að skoða það.“

Cul-de-sac frá 1980 eftir Ólaf Lárusson.
Mynd/Aðsend

Myndefnið er fjölbreytt. „Þarna eru skrásetningar á gjörningum, einnig er mikið af landslagstengdum myndum og síðan ljósmyndir þar sem unnið er út frá heimspekilegum hugmyndum,“ segir Vigdís.

Meiri athygli

Fjórar innsetningar eru á sýningunni. „Það er áhugavert að sjá hvernig ljósmyndin hefur komið inn í innsetningar í æ ríkara mæli. Steingrímur Eyfjörð, Halldór Ásgeirsson og Bjarki Bragason eru með mjög flottar innsetningar og Hallgerður Hallgrímsdóttir fær heilt rými út af fyrir sig. Annars eru verkin að megninu til ljósmyndir og þarna eru verk eftir myndlistarmenn sem nota ljósmyndamiðilinn í bland við aðra miðla.“

Sýningin í Listasafni Íslands er sett upp í tengslum við Ljósmyndahátíð Reykjavíkur. „Þegar maður skoðar sýningarsögu safna og gallería þá hefur ljósmyndin fengið meiri athygli undanfarin ár og settar hafa verið upp ansi margar ljósmyndasýningar. Upp úr aldamótunum 2000, þegar listamenn fóru að mennta sig meira í ljósmyndun, er eins og orðið hafi vakning og þá fóru söfnin um leið að kaupa inn ljósmyndaverk,“ segir Vigdís.

Sýningin í Listasafni Íslands stendur fram í maí.