Eins og þú ert núna var ég einu sinni/Eins og ég er núna, svo munt þú verða, er yfirskrift sýningar í Nýlistasafninu.

Sýningin er samsýning þriggja myndlistarmanna sem búa og starfa á Íslandi, þeirra Klavs Liepins, Renate Feizaka og Raimonda Serekaite-Kiziria. Sýningarstjóri er Katerína Spathí.

Á síðasta ári sendi þáverandi stjórn Nýlistasafnsins frá sér tilkynningu, þar sem óskað var eftir tillögum að haustsýningu í ár. Markmiðið var að stuðla að fjölbreytileika á íslenskri myndlistarsenu, og var kallinu beint sérstaklega að jaðarsettum listamönnum og listamönnum sem glíma við reynsluheim minnihlutahópa í verkum sínum. Umsækjendur voru fjölmargir og tvær umsóknir voru að lokum valdar, annars vegar tillaga listamannsins Raimonda Serekaite-Kiziria og hins vegar tvíeykisins Klavs Liepins og Renate Feizaka. Katerína Spathí var í kjölfarið fengin til að sýningarstýra verkefninu.

Á sýningunni er stór moldarinnsetning sem líkir eftir plægðum akri og tekur yfir allt safnrýmið, og er nokkurs konar hjarta hennar. „Skúlptúrar Raimonda dreifast um rýmið og vídeó- og hljóðverk eru eftir Klavs og Renate. „Það má segja að moldin stýri hreyfingu sýningargesta, jarðvegurinn myndar ákveðna leið sem gestir geta fylgt í gegnum sýninguna, sem vissulega hefur áhrif á upplifunina,“ segir sýningarstjórinn Katerína Spathí.

Blanda af satíru og gjörningi

Þetta er í þriðja sinn sem Klavs og Renate vinna saman vídeóverk. „Verk þeirra eru sviðsetningar á ýmsum aðstæðum, þar sem þau koma yfirleitt fram sjálf sem skáldaðar persónur. Vídeóin eru blanda af satíru og gjörningi og skoða yfirleitt pólitík og tilvist mannsins á mismunandi hátt: Hér á þessari sýningu bjuggu þau til karaktera sem þau kalla kartöflufólk.

Þau birtast í ýmsum uppákomum sem tengjast landbúnaði, á fáránlegan og húmorískan hátt,“ segir Katerína.

„Kartöflufólkið tilheyrir ekki endilega einni tiltekinni þjóð, heldur eru þau tilraun til að kanna og ef til vill afnema hugtakið þjóðareinkenni í heild sinni. Þessi tákn eru oft hálfgerð firring og takmarkandi í sjálfu sér, hverjum þjóna þau eiginlega? Það eru nokkur verk á sýningunni, meðal annars sería sem heitir Hyperconnectivity 1, 2 og 3, sem kannar til að mynda tengingu mannsins við hringrás lífsins.“

Moldarinnsetningin er nokkurs konar hjarta sýningarinnar.
fréttablaðið/ernir

Hreyfing og hugmyndir

Skúlptúrar Raimonda blasa við í gegnum gluggana þegar komið er að Marshallhúsinu úti á Granda. Þeir eru stórir og tignarlegir og eru afrakstur umfangsmikillar rannsóknar á efni og aðferðum. „Verkin endurspegla tilhneigingu listamannsins til að afbyggja og leika með framsetningu. Skúlptúrarnir eru líflegir, glansandi og teygja sig í allar áttir, í huglægu ljósi ná þeir langt út fyrir rými safnsins. Það má eiginlega segja að verkin hennar dansi á bilinu milli skúlptúrs og innsetninga, því þeir sameina hreyfingu og og hugmyndir okkar um eitthvað sem varir að eilífu. Þau eru unnin beint inn í rýmið, og virðast einföld við fyrstu sýn en eru í raun flókin og margvíð. Þau eru laus við rökhugsun og krefjast þess að áhorfendur staldri við, skoði og tengist.“

Spurð hvort samspil sé á milli verkanna á sýningunni segir Katerína: „Verkin virðast mjög ólík, bæði í sjónrænni framsetningu og innihaldi. Þau mætast samt í stærðinni, magninu af efni og hrárri efnisnotkun. Í stærra samhengi tengjast þau öll frumspekinni, hvað gerir hlut að hlut, kjarna lífsins, hversu háð og ómótstæðileg hugmyndin um endurnýjun lífdaga er.“

Sýningin stendur til 3. október í Nýlistasafninu, Marshallhúsinu. Laugardaginn 2. október býður hópurinn til listamannaspjalls kl. 13.