Arkitektinn Sverrir Sigurðsson hefur komið vægast sagt víða við á löngum og ævintýralegum ferli, sem hann rekur í endurminningabókinni Á veraldarvegum. Þar segir hann meðal annars frá því þegar honum var, nokkuð óvænt, falið eftirlit með hallarbyggingu furstans í Abú Dabí þar sem að mörgu undarlegu var að huga. Ekki síst við hönnun og byggingu kvennabúrsins sem var stór hluti hallarinnar.

Sverrir lauk arkitektanámi í Finnlandi og starfaði síðan við fagið um áratugaskeið í framandi löndum Asíu og Afríku og fyrir Alþjóðabankann.

Þriggja ára áætlun

„Þetta var nú löng krókaleið,“ segir Sverrir, um hvernig hann endaði í Abú Dabí, þar sem hann fékk eftirlit með hallarbyggingu furstans í fangið. „Þegar ég var búinn að læra þar fannst mér ég ekki vera nógu gáfaður til að halda beint heim og vildi fara til þriggja landa. Þetta var svona þriggja ára áætlun hjá mér.

Ég vildi fyrst fara til annars Norðurlands, síðan til þróunarlands og svo til Bandaríkjanna, áður en ég færi heim.“

Sverrir fékk síðan vinnu hjá sænsku fyrirtæki sem sendi hann til Kúveit. „Ég kom þarna þegar sex daga stríðinu lauk og þá datt bara botninn úr öllum verkefnum okkar en við fundum þetta verkefni í Abú Dabí. Sem var mjög forvitnilegt, því kvennabúrið var talsvert stór hluti hallarinnar og ég hafði auðvitað aldrei fengist við slíkar byggingar, segir Sverrir.

Framandi vandamál

„Þetta hefði verið framandi fyrir alla, hvaðan sem er úr heiminum,“ segir Sverrir, sem kom að byggingunni eftir að egypski arkitektinn, sem hannaði bygginguna, hafði hlaupist á brott með verklaunin.

Ensk útgáfa bókarinnar hefur hlotið bresk Red Ribbon-verðlaun og viðurkenningu frá bandarísku rithöfundasamtökunum Independent Author Network.8Mynd/Aðsend
Fréttablaðið/Samsett

„Ég átti að hlaupa í skarðið, sem þýddi sex vikna dvöl í Abú Dabí, en satt best að segja var ég hálfkvíðinn fyrir þessu verkefni, enda hafði aldrei verið minnst á kvennabúrsbyggingar í námi mínu í Helsinki.“

Sverrir segir í bókinni frá því að hann hafi fundið „fáeinar bækur sem fjölluðu um líf kvenna í heimi íslamstrúarmanna á bókasafni í Kúveit, en þar var ekki margt sem ég gat stuðst við þegar kom að lausn þessa vandamáls.“

Fokdýrt furðudót

Faðir furstans, sem Sverrir vann fyrir, var af fyrsta ættliðnum sem kynntist fjárfúlgunum sem fylgdu olíuauðæfum landsins og í krafti þess hafði brotthlaupni arkitektinn hvergi sparað við efniskaupin, eins og Sverrir segir frá í endurminningunum:

„Eitt fyrsta verkefnið var að ákvarða hvað gera ætti við allt furðulega byggingarefnið sem egypski arkitektinn hafði pantað. Honum hafði verið uppálagt að kaupa allt hið besta og spara ekkert í því sambandi. Hann hafði greinilega gert sitt besta og keypt alls kyns óhóflega og fjarstæðukennda muni.“

Sverrir þurfti þannig að finna út úr því hvað hann ætti að gera við rúman tug vatnskrana úr massífu 18 karata gulli. „Og hvar ætti að staðsetja klósettskálarnar sem spiluðu tvírása hljómlist þegar lokinu var lyft upp. Þarna voru endalausar ákvarðanir, því að listinn af furðudótinu var langur.“

Viking Voyager

Á veraldarvegum er íslensk útgáfa endurminninga Sverris, Viking Voyager: An Icelandic Memoir, sem hann skrifaði ásamt konunni sinni, Veronica Li. „Án aðstoðar Veronicu hefði þessi íslenska útgáfa aldrei orðið að veruleika,“ segir Sverrir.

„Hún starfaði um tíma sem blaðakona hjá Asian WSJ, útibúi Wall Street Journal í Hong Kong og eftir tólf ára starf hjá Alþjóðabankanum hafa þrjár aðrar bækur hennar verið gefnar út í Bandaríkjunum og ein þeirra einnig í Tævan og Kína,“ segir Sverrir og bendir á vefsíðu hennar: Veronicali.com.