Að þessu sinni fá sveppir, stórir sem smáir, þrútnir sem mjóir, þurrir sem slímugir, að skína í sviðsljósinu, enda er haustið ókrýndur konungur sveppaldina og ófáir sem leggja leið sína í nærliggjandi náttúrusvæði til þess að tína þessi gómsætu jarðaldin til átu.

Fjölbreytt funga Íslands

Í göngunni verður meðal annars fjallað um lifnaðarhætti og fjölbreytileika sveppa. Einnig verður gestum kennt hvernig þekkja megi matsveppi í náttúrunni. Þá verður kíkt á niðurbrotssveppi og gestir fræðast einnig um hið heillandi kerfi sveppróta í jarðveginum og þann fjölbreytta tilgang sem það gegnir í náttúrunni.

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson líffræðingur leiðir gönguna sem hefst stundvíslega klukkan 12 á hádegi við aðalinngang Grasagarðsins og tekur um hálftíma. Hér er klárlega um að ræða fullkomna dægrastyttingu, sem hentar einnig fyrir vinnandi fólk sem hefur tök á því að skjótast aðeins í hádeginu. Þátttaka er ókeypis og öll eru velkomin.