Á þessum tíma höfðu forsetaframbjóðendur áður átt í kappræðum og vissulega komið fram í sjónvarpi, en aldrei áður hafði verið sýnt frá kappræðum í sjónvarpi, og hvað þá í beinni útsendingu.

Þessi viðburður markaði því upphafið á nýjum pólitískum veruleika sem enn ríkir í dag, þar sem stjórnmálamenn mætast í sjónvarpsútsendingu fyrir augum almennings og fara yfir stefnumál sín, ásamt því að gagnrýna málflutning mótframbjóðenda.

Hinn ungi og kraftmikli Kennedy þótti geisla af hreysti en raunveruleikinn var sá að glímdi við veikindi og sjúkdóma alla sína ævi.

Ímynd hreystinnar

Talið er að allt að 70 milljónir Bandaríkjamanna hafi fylgst með kappræðunum sem voru í beinni útsendingu. Á þessum tíma var kalda stríðið í algleymingi, og voru umræður því tengdar áberandi í kappræðunum. Nixon var á þessum tíma varaforseti fyrir Dwight D. Eisenhower, naut stuðnings meðal þjóðarinnar og var talinn sigurstranglegri.

Hinn 43 ára gamli Kennedy, sem þá var öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, þótti geisla af hreysti, krafti og sjálfsöryggi. Hann var í augum áhorfenda táknrænn fyrir nýja og betri tíma. Það sem færri vissu þó var að Kennedy glímdi við mikinn og margþættan heilsubrest frá barnæsku og hefur raunar verið sagður veikasti forseti sem setið hefur í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að hafa einnig verið sá yngsti til að gegna embættinu.

Mikið var talað um hversu sveittur Nixon virtist vera á skjánum.

Bent hefur verið á að ljóminn sem virtist geisla frá honum í sjónvarpinu hafi verið sökum Addison-sjúkdómsins sem hann glímdi við, en eitt af einkennum Addison eru breytingar á húðlit og getur húðin virst bronslituð eða sólbrún.

Nixon aftur á móti hafði verið á ströngum ferðalögum vegna kosningabaráttunnar og var auk þess tiltölulega nýútskrifaður af spítala, þar sem hann hafði lést töluvert vegna aðgerðar á hné. Einnig er sagt að hann hafi rekið slasaða hnéð í skömmu fyrir útsendingu en neitað að hætta við. Nixon var gugginn, þvalur og fölur á að líta, með þykkt lag af kökukenndum farða og klæddur jakkafötum sem þóttu passa illa.

Nixon varð síðar forseti en sagði af sér vegna Watergate-hneykslisins, fyrstur, og enn sem komið er sá eini.

Óvænt forskot

Í skoðanakönnunum kom fram að þeir sem hlustuðu á kappræðurnar í útvarpi mátu báða frambjóðendur svipað og var Nixon jafnvel sagður vera með örlítið forskot. En hjá þeim sem horfðu á sjónvarpsútsendinguna var staðan allt önnur. Kennedy þótti skara fram úr í sjónvarpinu og í kjölfarið tók hann fram úr Nixon í skoðanakönnunum og endaði á því að vinna kosningarnar, þó ekki með miklum yfirburðum. Talið var að kappræðurnar hefðu ýtt undir ákvörðun fjögurra milljóna Bandaríkjamanna um að kjósa Kennedy.

Varaforseti Kennedys, Lyndon B. Johnson, sem tók við forsetaembættinu eftir að Kennedy var myrtur, hafnaði því að taka þátt í kappræðum í beinni útsendingu þegar hann bauð sig fram árið 1964 og fjórum árum síðar tók Nixon sömu ákvörðun. Það var því ekki fyrr en árið 1976 sem kappræður af þessu tagi áttu sér aftur stað, þegar sitjandi forseti, Gerald Ford, mætti Jimmy Carter, og hafa þær verið fastur liður í öllum forsetakosningum vestanhafs síðan þá.

Ný styttist óðum í kappræður á milli forsetaframbjóðendanna Donalds Trump og Joes Biden og verða þær eflaust ýmist eða bæði æsispennandi og niðurdrepandi. Fróðlegt verður þó að sjá hvort og þá hvaða áhrif þær munu hafa á hug og hjörtu Bandaríkjamanna og þar af leiðandi útkomu kosninganna.

Donald Trump og Joe Biden munu brátt mætast í kappræðum og verða þær eflaust eftirminnilegar.