Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, lögmaður og framkvæmdastjóri, tilkynnti framboð sitt til stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins á Facebook með þeim orðum að hún ætli að vinna af eljusemi og heiðarleika fyrir sjóðfélaga og hvatti Facebook-vini sína úr þeirra röðum til þess að vera í sambandi.

„Ég tel mig eiga fullt erindi í stjórn lífeyrissjóðsins, ég hef þekkingu á starfsháttum og rekstrarumhverfi lífeyrissjóða,“ segir Sveinbjörg sem gerði á garðinn frægan sem oddviti Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórnarkosningunum 2014.

Kosið er um þrjú stjórnarsæti og Sveinbjörg bendir á að þrír núverandi stjórnarmenn, sem að meðaltali hafi setið í stjórn félagsins í tólf ár, óski allir eftir endurkjöri.

„Það má öllum vera ljóst að hætta er á því að kraftur og árvekni eftirlits þeirrar stjórnar sem setið hefur svo lengi dvínar,“ segir Sveinbjörg sem ætlar sér að taka eftirlitshlutverk stjórnar með til dæmis rekstrarsamningi.

Þá segist hún fagna því að kjörið sé nú rafrænt í fyrsta skipti enda stórt skref í átt að sjóðfélagalýðræði og mikilvægur þáttur í framboði hennar. „Enda gefst nú 60.000 sjóðfélögum nú loks tækifæri til að kjósa sinn fulltrúa í stjórn með einföldum hætti.“

Hún segir ýmis teikn á lofti í íslensku efnahagslífi, hækkandi vextir og verðbólga og mikil áskorun að gæta réttinda sjóðfélaga i slíku árferði. „Það er áskorun sem ég vil taka og fá umboð sjóðfélaga næstu þrjú árin til að vera rödd þeirra í stjórn sjóðsins.“

Kjörið stendur yfir þessa viku og lýkur á hádegi á sunnudaginn og Sveinbjörg bendir á að með rafrænum skilríkjum ætti ekki að taka nema hálfa mínútu að kjósa.

Meira um ársfund Frjálsa lífeyrissjóðsins hér.