Það er öllum ljóst að svefn er nauðsynlegur okkur öllum. Þeir sem svefnvana eru eða glíma við raskanir á svefni upplifa hin ýmsu einkenni bæði líkamleg og andleg. Þá má færa rök fyrir því að því fylgi ákveðin áhætta fyrir samfélagið að einstaklingar fái ekki nægan svefn. Þau rök geta verið í formi þess að áhætta sé aukin, árvekni minni og slysatíðni aukin. Þreyttir starfsmenn fyrirtækja og stofnana eru ekki jafn vel í stakk búnir að mæta áskorunum í starfi sínu sem getur leitt til mistaka, atvika, lélegri þjónustu og fjárhagslegs skaða svo eitthvað sé nefnt. Heilsu þeirra sömu er stefnt í voða ef vandamálið er ítrekað eða langvinnt. Það má því segja að svefnvandamál séu ógn við öryggi samfélagsins ef maður kýs að horfa á það með þeim gleraugum.

Fjölmargir gera sér vel grein fyrir vandanum og leita lausna við honum. En það eru aðrir sem átta sig ekki á þeim vanda sem þeir skapa sér og öðrum. Orsakir fyrir svefntruflun geta verið býsna margbreytilegar og átt sér fullkomlega eðlilegar skýringar á meðan aðrar eru hreint og beint sjúklegar. Streita og of mikið álag í vinnu, skóla eða verkefnum getur verið tímabundið sem og langvinnt ástand. Mikilvægt er að greina þar á milli því meðferð og nálgun er mismunandi. Undirliggjandi sjúkdómar, lyfjanotkun og fíknisjúkdómar hafa töluverð áhrif einnig í þessu samhengi. Hegðunarmynstur og lífsstíll ákveðinna hópa samanber unglinga er svo kapítuli út af fyrir sig, en við höfum nýlegar rannsóknir sem sýna fram á allt of lítinn svefn þeirra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þá og samfélagið í heild. Fólk í vaktavinnu er einnig sérstakur áhættuhópur sem og þeir sem ferðast mikið á milli tímabelta og rugla líkamsklukkuna.

Vísindin eru nokkuð sammála þegar kemur að því að leggja fram þá nálgun að óregla á svefni og of lítill svefn geti ýtt undir lífsstílssjúkdóma líkt og offitu, lungna-, hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein og ýmsa fleiri kvilla svo við gleymum ekki geðsjúkdómum. Það er því mikilvægt að horfa á svefn sem hluta af því að taka sjúkrasögu einstaklinga og átta sig á samhengi hlutanna áður en farið er í rannsóknir af ýmsum toga sem þó þarf iðulega til að greina vandann enn frekar og þannig finna meðferð við hæfi.

Svefnþörf einstaklinga er vissulega eitthvað mismunandi og hún dvínar með aldri. Ólíklegt er að einstaklingur sem er í verulegri svefnskuld yfir langan tíma geti leiðrétt það án aðstoðar. Besta leiðin til að vinna á svefnvanda er að horfa heildstætt á einstaklinginn og allt umhverfi hans, ef það eru augljósar leiðir til úrbóta skyldi beita þeim áður en tekin eru til dæmis svefnlyf. Hugræn atferlismeðferð er mikilvægt meðferðartól, en svo getur aftur á móti einnig reynst nauðsynlegt að nota öndunarvélar og aðstoð hjá þeim sem þjást af kæfisvefni svo dæmi sé tekið. Lyf koma síðast í röðinni og geta verið til mikils vansa en engu að síður geta þau reynst nauðsynleg. Pössum svefninn og ekki safna upp svefnskuld, það mun reynast erfitt að endurgreiða hana fyrir rest með einhverjum af ofantöldum afleiðingum.