Breski leikarinn Dave Prow­se, sem þekktastur er fyrir að hafa leikið sjálfan Svart­höfða í upp­runa­legu Stjörnu­stríðs­myndunum, lést eftir að hafa glímt við Covid-19.

Þetta staðfestir dóttir hans Rachel Prowse í samtali við breska miðilinn The Sun. Faðir hennar féll frá eftir tveggja vikna sjúkrahúsdvöl í Lundúnum og var 85 ára að aldri. Fyrst var greint var frá andláti hans um helgina.

Rachel segir að þrátt fyrir að hann hafi leikið ófá illmennin á ferli sínum hafi faðir hennar svo sannarlega verið ljúfur, góður og gjafmildur maður. Þá hafi hann áður verið greindur með Alzheimers-sjúkdóminn.

Sóttvarnatakmarkanir komu í veg fyrir að hún gæti heimsótt föður sinn og segir hún það hafa verið hræðilegt að hafa ekki fengið að kveðja hann í persónu.

Prowse á stað í hjörtum margra Stjörnustríðsaðdáendanna en hann var ekki lengi að gera illmennið að sínu með hæð sinni og vexti. James Earl Jones ljáði per­sónunni svo rödd sína.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hóf Prow­se feril sinn sem kraft­lyftingar­maður og keppti fyrir hönd Bret­lands á heims­veldis­leikunum í kraft­lyftingum árið 1962.

Hann fékk sitt fyrsta hlut­verk árið 1967 í Casino Roya­le, kvik­mynd um breska njósnara hennar há­tignar James Bond. Prow­se var svo í­trekað ráðinn til að leika skrímsli eða annars­konar ó­frýni­legar verur og fór til að mynda með hlut­verk skrímslis Franken­steins.