Breski leikarinn Dave Prowse, sem þekktastur er fyrir að hafa leikið sjálfan Svarthöfða í upprunalegu Stjörnustríðsmyndunum, lést eftir að hafa glímt við Covid-19.
Þetta staðfestir dóttir hans Rachel Prowse í samtali við breska miðilinn The Sun. Faðir hennar féll frá eftir tveggja vikna sjúkrahúsdvöl í Lundúnum og var 85 ára að aldri. Fyrst var greint var frá andláti hans um helgina.
Rachel segir að þrátt fyrir að hann hafi leikið ófá illmennin á ferli sínum hafi faðir hennar svo sannarlega verið ljúfur, góður og gjafmildur maður. Þá hafi hann áður verið greindur með Alzheimers-sjúkdóminn.
Sóttvarnatakmarkanir komu í veg fyrir að hún gæti heimsótt föður sinn og segir hún það hafa verið hræðilegt að hafa ekki fengið að kveðja hann í persónu.
Prowse á stað í hjörtum margra Stjörnustríðsaðdáendanna en hann var ekki lengi að gera illmennið að sínu með hæð sinni og vexti. James Earl Jones ljáði persónunni svo rödd sína.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hóf Prowse feril sinn sem kraftlyftingarmaður og keppti fyrir hönd Bretlands á heimsveldisleikunum í kraftlyftingum árið 1962.
Hann fékk sitt fyrsta hlutverk árið 1967 í Casino Royale, kvikmynd um breska njósnara hennar hátignar James Bond. Prowse var svo ítrekað ráðinn til að leika skrímsli eða annarskonar ófrýnilegar verur og fór til að mynda með hlutverk skrímslis Frankensteins.