Star Wars, sem síðar fékk undirtitilinn A New Hope, var frumsýnd fyrir 45 árum sem gefur Hafsteini Sæmundssyni kjörið tækifæri til þess að loka hlaðvarpsþáttahring sínum um Stjörnustríð með rúmlega þriggja klukkustunda Bíóblaðri sem hverfist um þrjár síðustu myndirnar í níu mynda bálkinum.

„Ég er í rauninni búinn að gefa út fimmta Star Wars-þáttinn minn í dag og er þá búinn að fullkomna þrennuna. Ég gaf fyrst út sérþátt um Episode I-III, svo Episode IV-VI og svo eru það VII-IX í dag,“ segir Hafsteinn sem hefur auk þess rætt sérstaklega um Sith-illmenninn í sérstökum þætti og tekið sjónvarpsþættina Book of Boba Fett í öðrum.

Hafsteinn segist mjög ánægður með þessa Stjörnustríðsþætti sína sem hann tengir beint við stóru tímamótin í dag. „Mér finnst gaman að heiðra Star Wars með þessari þáttaseríu í kringum 45 ára afmæli A New Hope. Það er svolítið skemmtilegt en ég ætlaði mér í rauninni alltaf að gera Star Wars-þætti og hugsaði svo með mér að það væri gaman að því að setja auka púður í þetta núna í maí.“

Star Wars nördar fagna vel í maí enda 45 ár frá því að fyrsta myndin kom út og svo birtist Obi Wan á Disney+ á föstudag:

Hafsteini telst til að hann hafi verið milli sex til átta ára gamall þegar hann sá fyrstu þrjár Stjörnustríðsmyndirnar en hann er fæddur 1983, sama ár og sú þriðja, Return of the Jedi, kom í kvikmyndahús.

„Ég sá þetta á VHS í gamla daga og svo keypti ég þetta náttúrlega á DVD,“ segir Hafsteinn og bætir að spurður við að hann hafi aldrei litið á sig sem harðkjarna Stjörnustríðsaðdáanda. Hann hafi þó verið á réttum stað á réttum tíma þegar millikaflinn hófst með The Phantom Menace 1999.

„Ég sá alla forleikina í bíó og var sextán ára þegar Phantom Menace kom út og man ennþá hvað ég var spenntur þegar ég sá „treilerinn“ fyrir hana. Þetta hefur svolítið fylgt mér síðan þá,“ segir Hafsteinn sem er nýbyrjaður að lesa Star Wars bækurnar sem hafa orðið til þess að hann hefur aldrei verið jafn heitur aðdáandi.

„Ég er tiltölulega nýdottinn í bækurnar og þá opnaðist fyrir mér nýr heimur af Star Wars efni. Þetta er náttúrlega heill hafsjór af bókum,“ segir Hafsteinn sem er heltekinn af skuggahlið Máttarins og les mest bækur um þá illu sótrafta sem kenna sig við Sith. „Mér finnst þeir mjög áhugaverðir karakterar.“

Þannig kemur vart á óvart að Hafsteinn nefni umhugsunarlaust hinn myrka Sith-lávarð Darth Vader, sjálfan Svarthöfða, þegar hann er beðinn að nefna eftirlætis persónu sína úr fyrstu myndinni.

„Ég verð að segja Vader. Ég er allur í Dark Side og það er Darth Vader. Ekki spurning,“ segir Hafsteinn sem hélt áfram að halla sér að skúrkunum í seinni myndunum og nefnir sérstaklega þá Darth Maul og illa keisarann, Darth Sidious. „Mér finnst hann æðislegur en í fyrstu myndinni er það Vader.“

Hafsteinn segir Darth Vader í algjöru uppáhaldi.
Fréttablaðið/Skjáskot

Hafsteinn segir einfaldlega allt í kringum Svarthöfða vera tryllt. „Hann eldist líka bara ótrúlega vel. Hann er ennþá flottur og röddin er enn þá geggjuð.“

Í Bíóblaðursþætti dagsins fær Hafsteinn Star Wars sérfræðingana Óla Bjarka og Mána Frey til þess að ræða fyrst og fremst nýjustu myndirnar þótt þær eldri beri að sjálfsögðu á góma.

„Þetta er alvöru og rétt rúmlega þriggja tíma þáttur,“ segir Hafsteinn sem fann hvorki fyrir lengdinni við upptökurnar eða þegar hann horfði á þáttinn eftir á. „Ég veit að ég er ekki alveg beint hlutlaus en mér finnst þetta frábær þáttur og þetta er gott efni. Það eru fróðleikur og pælingar í þessu og menn ekki alveg sammála. Virkilega skemmtilegt.“

Skiptar skoðanir eru um nýjustu Star Wars myndirnar og þær eru ræddar í Bíóblaðrinu.
Fréttablaðið/Skjáskot

Nördarnir ræða meðal annars hversu umdeild The Last Jedi er og að The Force Awakens sé í rauninni aðeins endurgerð á A New Hope og hversu margt klikkaði í The Rise of Skywalker.

„Þetta er ekki fyrir mig,“ segir Hafsteinn um þennan síðasta þríleik. „Mér finnst þetta bara lélegt. Strákarnir fíluðu The Last Jedi nokkuð vel og ég er ekki sammála. Þetta var ekki mynd fyrir mig og við rökræðum þetta svolítið í þættinum sem er gaman.“

Þátturinn er kominn á Spotify og YouTube og þar skemmti Hafsteinn sér svo vel að hann segir þá hæglega hafa getað blaðrað lengur. „Ég horfi á alla þættina mína sjálfur og skemmti mér konunglega,“ segir Hafstein og hlær. „Þessir ungu strákar eru mjög klárir og það er svo gaman að spjalla við þá og heyra hvernig þeir hugsa um bíómyndir og Star Wars í þessu tilviki en þeir eru báðir miklir Star Wars nördar og hafa verið í mörg ár þannig að ég fékk bara ekki nóg af þessu og fannst þetta svo skemmtilegt.

Þótt Hafsteinn loki hringnum í dag segist hann síður en svo hættur að gera hlaðvörp um Stjörnustríð enda finni hann mikinn áhuga og fái talsvert af skilaboðum þar sem hann er beðinn um að fjalla meira um Star Wars.

„Þetta kom mér svolítið á óvart vegna þess að ég hélt að í dag væri þetta bara Marvel. Það gladdi mig svolítið og mér þykir rosalega vænt um þessa Star Wars þætti sem ég er búinn að gera.“