Eins og gott skáld sagði eitt sinn: „Janúar er mánudagur mánaðanna... Og í dag er mánudagur í janúar.“ (höf. Skúli Jónsson.) Hér eru rituð orð að sönnu og þó svo ekki sé mánudagur í dag, þá er viðeigandi að telja upp nokkrar áhugaverðar staðreyndir um kaffi.

Arabica eða Robusta

Til eru tvær megintegundir af kaffi: Arabica og Robusta. Flestir kaffiræktendur rækta Arabica-kaffi, þar sem almennt er talið að kaffið af þeim runnum sé bragðbetra og sætara. Robusta-kaffið er þó ræktað og selt víða um heim. Kosturinn við Robusta-kaffið er að Robusta-plantan er auðveldari í ræktun, gefur meira af sér og inniheldur meira koffín en Arabica-baunir. En gallinn er sá að Robusta-baunirnar eru töluvert beiskari á bragðið, sem útskýrir að hluta til ástæðuna fyrir því að Ítalir nota margir hverjir sykur í espressokaffið sitt.

Kaffisvelgir

Frændur okkar Finnar eiga heiðurinn af því að drekka mest kaffi allra þjóða. Meðal Finninn fer með tæplega 12,5 kíló af kaffi á ári samkvæmt Alþjóðlegu kaffistofnuninni, sem er meira en tvöfalt magn af því sem meðal Bandaríkjamaður drekkur árlega.

Uppruni kaffis

Orðið „kaffi“ kemur af orði úr arabísku sem merkir „vín“. Qahwah sem þýðir „vín“ á arabísku varð að kahveh í tyrknesku og var þar átt við kaffi, og svo koffie í hollensku. Þaðan kemur orðið kaffi á íslensku og coffee á ensku.

Kaffi er líklegast sá drykkur sem heldur samfélaginu gangandi hér á norðurhveli jarðar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Svart eins og nóttin

Það muna líklega margir eftir rannsóknarlögreglumanninum Dale Cooper, sem leikarinn Kyle MacLachlan gerði ódauðlegan í sjónvarpsþáttaseríunni Twin Peaks úr smiðju meistara Davids Lynch. En þessi eftirminnilegi karakter er mikill kaffiunnandi og biður ósjaldan um kaffið sitt svart eins og miðnætti á tungllausri nóttu.

Kaloríusnauð dásemd

Einn kaffibolli af svörtu og sykurlausu inniheldur eina kaloríu. En með því að blanda við kaffið mjólk, rjóma, sætuefnum, sykri og fleiru hækkar kaloríufjöldinn fljótt.

Næringarríkur korgur

Þegar búið er að hella upp á kaffi er mikil sóun að henda korginum eftir á. Því kaffikorgurinn er til margs nýtilegur. Mörg næringarefni er að finna í korginum sem plöntur geta nýtt sér og blanda því margir kaffikorginum við jarðveg til þess að fá næringarríka mold fyrir inni- og útiplöntur.

Einnig er hægt að búa til afar áhrifaríkan líkamsskrúbb úr kaffikorgi. En samkvæmt Danusia Wnek hjá Good Housekeeping, er kaffikorgur frábær til þess að hreinsa burt dauðar húðfrumur, sem stuðlar að mjúkri og ljómandi húð. Einnig er talið að koffín geti haft jákvæð áhrif á blóðflæði í húðinni en því miður hafa ekki verið gerðar nægar klínískar rannsóknir til þess að staðfesta þessa virkni koffíns.