„Fyrir jólin var maður farinn að heyra út undan sér að það yrði hreinlega að vera þorrablót. Sem sagt á staðnum, en við ráðum víst eitthvað litlu um það og ætlum að feta í fótspor nefndarinnar frá því í fyrra,“ segir Sveinn Brynjólfsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, sem þetta árið á sæti í þorrablótsnefnd Svarfaðardals.

Veiran brellna og brögðótta hrakti sögulegt blótið í fyrra yfir í fjarfundarbúnað og þá gekk fólk að því gefnu að það yrði í fyrsta og eina skiptið. Nú er ljóst að endurtaka þarf þvingaðan leikinn og því fer þorrablót Svarfdælinga fram í tölvum, þann 5. febrúar, í stað félagsheimilisins Rimar.

Mynd/Aðsend

Annállinn á sínum stað

Sveinn segir blótið hins vegar ekki muni svíkja neinn og þekktir dagskrárliðir verði á sínum stað. Sölvi Hjaltason á Hreiðarsstöðum mun þannig lesa upp hinn klassíska þorrablótsannál Svarfdælinga líkt og síðustu ár.

„Það tekur sennilega allt að klukkutíma að flytja hann, með skemmtilegum innskotum frá nefndinni, gríni og öðru slíku,“ segir Sveinn. „Þetta gekk mjög vel í fyrra og heppnaðist vel og meira að segja ball á eftir með hljómsveit af svæðinu sem spilaði danslög í klukkutíma eftir á.“

Mynd/Aðsend

Heldur samfélaginu gangandi

Sveinn segir því ljóst að hvergi verði gefið eftir í ár þrátt fyrir vonbrigðin sem fylgja því að Svarfdælingar þurfi að sitja heima annað árið í röð.

„Þetta leggst þungt á menn. Eða þannig, menn eru auðvitað orðnir óþreyjufullir að komast á svona samkomu. Þetta er það sem heldur svona samfélagi gangandi: göngur, réttir, þorrablót og þessir viðburðir sem eru árlegir þar sem menn koma saman,“ segir Sveinn.

Enda hafi fólk búist við að síðasta ár yrði undantekning. „Svo heldur þetta áfram og við erum öll vitaskuld orðin þreytt. Það er mjög slæmt að missa þetta út ár eftir ár.“

Hann tekur fram að það sé hins vegar hugur í fólki. „Við gefumst ekki upp og munum gera þetta eins líkt því sem við könnumst við og hægt er,“ segir Sveinn, sem viðurkennir að hann hlakki til.