Steinhús Svanfríðar Jónasdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra á Dalvík, lendir í skotlínunni þegar útsendarar bandaríska sjónvarpsrisans HBO hafa breytt pósthúsinu í miðbænum í lögreglustöð bæjarins Ennis í Alaska, sögusviði bandarísku sakamálaþáttanna True Detective: Night Country.

„Þannig háttar til að ég á hús sem er akkúrat hérna í miðbænum og lendir í skotlínu þegar kvikmyndatökurnar byrja og ég held að þá þyki það bara of fallegt,“ segir Svanfríður.

„Pósthúsið hérna handan við götuna verður lögreglustöðin í þáttunum þannig að það þyrfti sem sagt að setja húsið í dulargervi,“ segir Svanfríður sem telur víst að fína steinhúsið hennar frá 1929 sé of fallegt fyrir drungalega sviðsmynd þáttanna.

Ekki hægt að segja nei

Svanfríður sagði frá því á Facebook í gær að verið væri að „setja ramma á húsið mitt svo hægt verði að breyta þessu fína steinhúsi frá 1929 í timburhjall.“ Þá fylgdi sögunni að þetta þýddi þó ekki að hún yrði innilokuð á meðan tökur væru í gangi því hún kæmist út á austurhlið hússins.

„Auðvitað segir maður bara já. Það er ekki annað hægt. Ég meina, maður getur ekki verið svo tíkarlegur að segja bara nei,“ segir alþingiskonan fyrrverandi sem samþykkti fúslega að fegurð hússins yrði tónuð tímabundið niður, því breytt í timburhjall og að rómantísk girðingin sunnan hússins yrði bárujárnsklædd í listrænum tilgangi.

Svanfríður segist aðspurð gera ráð fyrir að steinhúsið hennar verið timburhjallur í hálfan mánuð eða svo enda hefjist tökurnar sjálfar ekki fyrr en um mánaðamótin.

Jól í febrúar

Þá verður stórleikkonan Jodie Foster líklega tíður gestur á pósthúsinu og nágranni Svanfríðar en hún er í aðalhlutverki rannsóknarlögreglukonunnar Liz Danvers.

„Þetta er bara mjög skemmtilegt. Upplyfting í skammdeginu,“ segir Svanfríður og bætir við að þótt Dalvík sé mikill jólabær þá vinni liðið frá HBO nú hörðum höndum að því að magna þá stemningu enn frekar með hressilegri viðbót af amerísku jólaskrauti.